150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[13:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, aðeins varðandi þróunarsamvinnuna. Það er bara okkur ekki sæmandi, jafnvel þó að við gerum ágætlega í að bæta núna í, samfara Covid-veirunni, að ráðherrar þjóðarinnar komi í viðtöl og tali um að við ætlum ekki að láta okkar eftir liggja á meðan við erum svo langt á eftir markmiðum sem við höfum sett okkur. Það er bara það sem ég er að benda á.

Varðandi uppbyggingu varnarmannvirkja er ég ekki að segja að þau séu endilega óþörf. Ég er að tala um að það þurfi umræðu um þau. Auðvitað er það meira en stigsmunur, það er eðlismunur, þegar upphæðir fara úr 5 milljörðum í 15 milljarða. Og þegar einstakir þingmenn eru að ræða í bréfum til sveitarstjórna um 30 milljarða til viðbótar í uppbyggingu þá hljótum við að spyrja: Um hvað er að ræða? Og af því að í þessu ágæta plaggi er fín mynd, kennslubókarmynd af mengi, þar sem er farið yfir alþjóðasamstarf okkar — þar er Evrópusambandið og EES-samningurinn og þar er NATO, ÖSE og guð má vita hvað — þá verður ráðherra að hætta að fara alltaf á taugum ef við nefnum Evrópusamvinnu og halda að allt sé að hverfast um hana. Hún skiptir okkur gríðarlegu máli, er lykillinn að velgengni okkar í dag, en ráðherra verður einhvern veginn að hætta þessari þráhyggju og þora að fara að tala um hvaða breytingar eru að eiga sér stað í heiminum og hvernig við fótum okkur best þar. Er það með þessum eða hinum hættinum? Þess vegna hlýt ég að styðja ákall hv. þingkonu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur: Vill ráðherra gera þá skýrslu sem hún biður um? Svaraðu bara já eða nei.