150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[13:14]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum alltaf talað fyrir því að við viljum auðvitað verja þennan mikilvæga viðskiptasamning, en það útilokar ekki að maður horfi stærra. Og af því að ég og hæstv. ráðherra lærðum stærðfræði hjá held ég sama kennaranum og lærðum báðir um mengi þar þá vitum við að EES-samningurinn er einhvers konar hlutmengi í Evrópusambandinu og síðan er Evrópusambandið einhvers konar hlutmengi í enn þá stærra samstarfi og það er alveg hægt að ræða þessa tvo hluti og hvar er best fyrir okkur að vera. En ég er sammála því að það er sennilega rétt hjá hæstv. ráðherra að hann er ekki að fara á taugum vegna þess að hann vill ekki ræða utanríkismál. Sennilega er þetta algerlega útpælt hjá honum vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn í augnablikinu finnur sig í þeirri óþægilegu stöðu að vera ráðvilltur og klemmdur á milli sjónarmiða annars vegar Viðreisnar sem vill meira alþjóðastarf og hins vegar Miðflokksins sem hefur verið krítískari út í ýmislegt varðandi það. Það er dálítið erfitt að vera á þeim stað að ætla að gera öllum til hæfis. Þá er það gjarnan sem gestgjafinn segir eiginlega bara sem minnst og reynir að forða sér frá allri umræðu. Það að gefa út yfirlýsingu í eina áttina getur verið hættulegt fyrir hann hinum megin. Ég held að það sé í rauninni bara hárrétt hjá ráðherra, það er bara fullkomin pólitísk greining á stöðunni. Sjálfstæðisflokkurinn er þarna í erfiðri stöðu á milli og þess vegna vill ráðherra dvelja uppi í holtaþokunni sem hann taldi umræðuna um utanríkismál vera stadda í í augnablikinu.