150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[13:50]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Já, ég er sammála hv. þingmanni og bara svo það sé sagt í þessu samhengi um samstarf Norðurlandanna að við höfum lagt sérstaka áherslu í formennskutíð okkar í Norðurlandaráði á öryggis- og varnarmálin, samvinnu utanríkisþjónustu og auðvitað samvinnu Norðurlandanna í heild sinni. Nú erum við svo lánsöm að það var fallist á tillögu mína og náðist samstaða um að Björn Bjarnason stýri í rauninni skýrslunni sem menn kenna við Stoltenberg, en nú tala menn um Bjarnason-skýrsluna. Þetta er eitt af þeim málum, í breyttum heimi, sem menn líta til þegar hugsað er um öryggismál. Ég tel að umræðan hafi verið of lítil hér heima og áherslan hafi ekki verið nægilega mikil. Hv. þingmaður fór aðeins yfir það. Við erum með öðruvísi stjórnarráð en þau lönd sem við berum okkur saman. Við erum t.d. ekki með her og þá er ýmislegt sem kemur að varnarmálunum öðruvísi. Þetta heyrir undir samgönguráðuneytið og eðlilega eru fjarskipti þar. En þetta er þáttur sem við þurfum að líta sérstaklega til. Það er enginn sem gerir hlutina fyrir okkur. Við þurfum að vinna vinnuna okkar hér heima en á sama tíma er mikilvægt að við lærum af þeim sem við erum í nánasta samstarfi við og vinnum þétt saman í því. Það kæmi mér verulega á óvart ef þetta verður ekki stórt atriði í skýrslu Björns Bjarnasonar.