150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[14:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski litlu við þetta að bæta öðru en því að við höfum á að skipa mjög hæfu starfsfólki í utanríkisráðuneytinu sem hefur sérhæft sig á ákveðnum sviðum. Við eigum að sjálfsögðu að nýta þá þekkingu sem við höfum öðlast í mannréttindaráðinu. Það er mjög mikilvægt. Síðan eru held ég u.þ.b. tólf ár í það að við gætum hugsanlega fengið tækifæri til að setjast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fylgja því eftir og sækjast eftir setu í því mikilvæga ráði. Við höfum alla burði til þess og höfum reynslu af því að bjóða okkur fram og getum nýtt þá reynslu. Það fylgja því mikil tækifæri að setjast í þetta mikilvæga ráð þannig að ég legg það svona inn hér, þetta er eitthvað sem við ættum að stefna að. Tíminn líður hratt og þetta þarfnast mikils undirbúnings og þar getum við haft rödd til að tala fyrir þeim málum sem við höfum talað fyrir í mannréttindaráðinu og veitir svo sannarlega ekki af. Síðan á öryggisráðið náttúrlega, eins og við þekkjum, að reyna að stuðla að friði í heiminum, þar er mikið verk að vinna og þar höfum við Íslendingar mikil tækifæri. Við erum herlaus þjóð, við erum þjóð án vopnaframleiðslu. Það er eitthvað sem skiptir miklu máli þegar kemur að friðarmálum og friðarumleitunum milli ríkja o.s.frv., þetta traust. Við sjáum það bara í Miðausturlöndum, bæði hvað Ísrael og Palestínu varðar, deilur þar. Þar treysta menn ekki Evrópusambandinu, Ísraelsmenn treysta ekki Evrópusambandinu, Palestínumenn treysta ekki Bandaríkjamönnum o.s.frv. Þetta er eitthvað sem (Forseti hringir.) skiptir verulegu máli, að hafa traust, þannig að við eigum fullt erindi inn í öryggisráðið (Forseti hringir.) að mínum dómi og það er af mörgu að taka. Ég segi þetta gott í bili og þakka fyrir ágætar umræður.