150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[14:25]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og eins og hann nefndi sjálfur fór hann yfir mjög stór mál á mjög skömmum tíma af því að ræðutíminn er stuttur, en hann kom inn á marga góða punkta. Eitt af því sem hv. þingmaður vísaði til og talaði fyrst um, og ætti að vera augljóst en er það ekki, er að alþjóðalögin eigi að vera skýr og að það eigi að fylgja þeim eftir. Ég held að það muni reyna svolítið mikið á það núna í kjölfar Covid-faraldursins hvernig það mun reynast og þar eru algerlega okkar hagsmunir undir eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel og hefur ávallt verið fastur á því að okkar hagur sé að farið sé eftir alþjóðalögum. Það er auðvitað hagur allra, en sérstaklega smærri þjóða. Hv. þingmaður vísaði hér til mjög mikilvægra mála sem við ræðum lítið en við erum alveg með auga á og leggjum áherslu á og það eru hafréttarmálin og landhelgismálin. Þar er um að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir íslenska þjóð og við erum algerlega meðvituð um það og það er forgangsmál hjá okkur að vinna að því.

Varðandi fastanefndina þá verður örugglega tekin ákvörðun um það af einhverjum öðrum, geri ég ráð fyrir, en þeim sem hér stendur, því að það er gert ráð fyrir að þetta verði 2022–2023, maður veit nú aldrei hvernig mál þróast. En eins og hv. þingmaður veit hefur ekki verið skrifstofa þarna en þegar við tökum við forystunni þurfum við eðli máls samkvæmt að auka viðveru okkar.

Ég vildi líka minnast á það sem hv. þingmaður kom sérstaklega inn á, sem er vanmetið en gríðarlega mikilvægt, en það er hvað jarðvarminn getur spilað stórt hlutverk í baráttunni í loftslagsmálum. Reyndar er það þannig ef það væri bara farið í það að hita upp hús með jarðvarma þar sem það er hægt þá hugsa ég að við myndum leysa loftslagsvandann. Þessi leið sem við fórum var nú ekki farin út af loftslagsmálum á sínum tíma, en þeir sem á undan okkur gengu sýndu mikið frumkvæði og dug og þor og hitaveituvæddu landið. Þessa tækni er hægt að nota víðs vegar annars staðar og þetta er svo sem þverlægt alls staðar og hvort sem það er í þróunarsamvinnunni eða í uppbyggingarsjóði EFTA eða EES eða annars staðar þá leggjum við áherslu á þetta. En betur má ef duga skal.