150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[14:29]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Hv. þingmaður ræddi hér í lokin og fór yfir þær breytingar sem verða út af faraldrinum og auðvitað hafa orðið miklar breytingar á þessum örskamma tíma. Við höfum sett sérstakan hóp af stað sem á að vinna mjög hratt til að nýta þessi sóknarfæri sem komu með faraldrinum, augljóslega t.d. með fjarfundum. Það er eitthvað sem hefur alltaf verið hægt en nú er það gert. Við höfum kallað eftir þessu í utanríkisþjónustunni, en það hefur verið svolítið erfiðara hinum megin að fá fólk til að nýta þá tækni. Núna gerist þetta og ég hef átt fjölmarga fundi og miklu fleiri fundi, þó að ég hafi ekki getað farið neitt, með því að nýta fjarfundabúnað og ég vona að það sé komið til að vera. En ég er ansi hræddur um, nema eitthvað breytist, að áskoranirnar verði miklu fleiri. Ég hef áhyggjur af því að við munum þurfa að fara í hagsmunagæslu sem við höfum verið nokkuð laus við fram til þessa. Þá er ég t.d. að vísa til þess þegar ríki heims og öll þau ríki sem við berum okkur saman við, eru t.d. að fara í ríkisstyrki og allra handa aðgerðir. Ég vona að þeim hlutum verði hætt mjög hratt en ég er svartsýnn á að það verði.

Sömuleiðis erum við núna að vinna að því með mörgum fleirum í ríkisstjórninni að reyna að opna landamæri með skynsamlegum hætti, það er nauðsynlegt til að það geti komið efnahagsleg viðspyrna. Það er auðvelt að loka en það getur orðið erfitt að opna og það getur tekið langan tíma. Það snýst ekki bara um för fólks heldur allra handa hluti sem okkur finnst vera algjörlega sjálfsagðir núna og höfum í gegnum samninga, m.a. EES-samninginn, og höfum getað gengið að sem vísum. Við erum að sjá það að menn hafa tekið ýmislegt í Evrópusamstarfinu úr sambandi við þessar aðstæður. Það má vera og það er líklegra en hitt að við þurfum að einbeita okkur sérstaklega að hagsmunagæslu sem við höfum ekki þurft að gera í nokkuð langan tíma. Af hverju þurfum við að gera það? Af því að við þurfum að auka verðmæti hér, við verðum að (Forseti hringir.) selja vörur og þjónustu ef við ætlum aftur að komast á þann stað sem við viljum vera á efnahagslega.