150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[14:45]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir prýðilega ræðu. Það er náttúrlega vitað að við erum ekki í sama flokki þannig að við þurfum ekkert að vera sammála um alla hluti. En ég þakka hlý orð í garð utanríkisþjónustunnar og starfsfólks hennar. Ég er alveg sammála hv. þingmanni þegar hún talar um mannréttindamál að öðru leyti en því að ég er ekki sammála því að þetta hafi dottið í fangið á okkur. Við settum aukna áherslu á þetta þegar ég ávarpaði mannréttindaráðið en ég er fyrsti íslenski utanríkisráðherrann sem gerir það og við fundum það þegar eftir því var leitað að við myndum setjast í ráðið að það var ekki út af neinu. Það var vegna þess að við höfðum gengið fram eins og við gerðum og menn vildu að því yrði fylgt eftir. Það höfum við gert og munum halda áfram. Hv. þingmaður vísar í Evrópuráðið og allt rétt sem hún segir um að við eigum auðvitað að nýta og munum nýta reynsluna þaðan. En við eigum líka að gera þetta í þróunarsamvinnunni og það höfum við ákveðið að gera. Það var þriggja manna vinnuhópur sem kom með prýðisgóðar áherslur í skýrslu og hefur skoðað mikið hvað við getum lært af öðrum löndum sem við berum okkur saman við og þetta er eitt af því sem við erum að leggja áherslu á.

Þegar kemur að jafnréttismálum og umhverfismálunum þá er það þannig að fólk tekur því bara sem sjálfsögðu í okkar utanríkisstefnu, sama hvar það er, hvort sem það er í varnarmálum eða annars staðar, að við séum með jafnréttismálin á oddinum. Það er eftirspurn eftir því. Ef við skoðum t.d. hér á bls. 39 um kynjajafnrétti í heiminum og tíu efstu þjóðirnar, þá er Ísland nr. 1, Noregur nr. 2, Finnland nr. 3 og Svíþjóð nr. 4. Ég get farið yfir umhverfismálin á eftir en við gerum auðvitað mjög gott með því að sýna gott fordæmi (Forseti hringir.) og sem betur fer gerum við það hvað þetta varðar. En þetta er eitt af því sem við leggjum áherslu á alls staðar í okkar utanríkisstefnu.