150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[14:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um skýrslu hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Hér hefur verið mikið rætt um t.d. mannréttindi og mannréttindasáttmálann. Ég hef oft furðað mig á því í sambandi við mannréttindasáttmálann og Mannréttindadómstólinn, sem er dómstóll sem er orðinn gjörsamlega yfirfullur af málum, hvernig valið fer fram á þeim málum sem fá forgang þar inni. Sum mál get ég verið alveg sammála um og önnur ekki en ég er sérstaklega undrandi yfir þeim málum sem komast ekki fyrir þann dómstól. Það segir mér að dómstóllinn sé ekki í mjög góðum málum eins og staðan er í dag og þar þarf að bæta úr.

Mér finnst við oft fara á flug þegar við ræðum mannréttindi og hvernig þau eru erlendis, sem er gott, en við gleymum oft að við eigum að byrja hér heima, taka til í eigin garði, sýna öðrum löndum gott fordæmi og vera með mannréttindi og jafnrétti og það allt saman í góðum málum heima hjá okkur. Það yrði örugglega vel tekið eftir því ef við gerðum það en því miður sjáum við í mörgum málum að við stöndum okkur ekki nógu vel og þá sérstaklega, myndi ég segja, í málefnum fatlaðra. Samningur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra hefur verið heit kartafla hjá ríkisstjórn eftir ríkisstjórn og það er eiginlega óskiljanlegt og skammarlegt að við skulum ekki vera löngu búin að ganga þannig frá því að mannréttindi fatlaðs fólks séu byggð á nákvæmlega sama grunni og allra annarra. Við sjáum kannski betur flísina í auga annarra en bjálkann í eigin auga.

Eitt af því sem ég er líka að velta fyrir mér eftir andsvör við hæstv. utanríkisráðherra áðan er sú tilfinning sem ég fékk um EES-mál. Ég fékk það á tilfinninguna að við værum með stóran konfektkassa með 100 molum. Síðan ætlum við að velja einhverja 12, 14, 15 góða mola. Þetta eru molar úr dökku og góðu súkkulaði en svo er fylling inni í þeim og af henni getur verið óbragð, eins og í tilfelli orkupakkans og fleiri mála. Ég sé ekki að við séum að fá allt það góða og skilja það slæma eftir. Ég verð að segja alveg eins og er að bara núna um daginn, og það var ekki í fyrsta skipti, fékk ég hálfgerðan hroll þegar ég byrjaði að lesa EES-lögin. Þetta var eins og í laginu hans Ladda um Roy Rogers, „hættu að telja“. Ég var að reyna að telja ESB, EES og þetta var í öðru hverju orði, EES-reglugerðir eða lög. Hvernig í ósköpunum eigum við að sjá lögin fyrir reglunum eða reglurnar fyrir lögunum, þetta er svo gígantískt mikið og furðulegt? Ég hef oft hugsað að það hljóti að vera hægt að einfalda þetta, það hljóti að vera hægt að hafa þetta á mannamáli í staðinn fyrir að það líti út eins og ég veit ekki hvað.

Svo er annað í erlendu samstarfi. Þar er eitt af stóru málunum hafið, loftslagið, loftslagsmálin, plastið sem er okkur lifandi að drepa. Þarna þurfum við aldeilis að taka til hendinni og sem betur fer erum við núna að vakna upp og fara að gera eitthvað í þessum málum. En spurningin er bara hvort það dugi til vegna þess að við sjáum enn þá þjóðir taka plastdraslið sitt og annað rusl og senda það til vanþróaðra landa þar sem það safnast upp og verður eiginlega að frumskógi. Maður sér heilu fljótin í Asíu stútfull af plastúrgangi, sérstaklega frá Evrópuríkjum. Þarna erum við að flytja vandamál Evrópu yfir á vanþróuðu ríkin sem eru að drukkna í þessu.

Eitt sem við ættum að vera búin að ræða er Covid-19 veiran og hvers vegna hún er komin fram. Nýjustu kenningarnar eru þær að hún sé komin til vegna þess að við erum að eyða skógi. Við erum að eyða gróðri og þar af leiðandi skapa kjöraðstæður fyrir svona vírusa. Ef þetta er rétt þá er Covid-19 veiran sú fyrsta af mörgum og þá þurfum við, eins og ég hef komið að áður, að fara að hafa meiri áhyggjur af því hvernig við ætlum að berjast við veiruna heldur en af kjarnorkusprengjum og öðru vegna þess að það er auðvitað allt annar hlutur. Eins og staðan er í dag held ég að ótti okkar við að lenda í öðrum veirufaraldri sé meiri en ótti okkar við nokkuð annað. Spurningin er bara hvað Norðurlöndin og aðrar þjóðir heims ætla að gera í þessum málum. Núna virðist það vera keppikeflið að finna uppruna veirunnar, hvar og hvers vegna hún varð til, finna út hverjum faraldurinn er að kenna og kenna hvert öðru um í staðinn fyrir að einbeita okkur að því að hugsa hvernig við ætlum við að stoppa faraldurinn og koma í veg fyrir að næsta holskefla fari af stað. Það verður ærið verkefni og ég vona heitt og innilega að við finnum eitthvað út úr því.

Annað sem er sýnir okkur svart á hvítu að við þurfum að vera í góðu samstarfi við Bretland er það hvernig Bretum gengur að koma sér út úr kóngulóarvef ESB. Við vitum að það hefur ekki gengið átakalaust fyrir sig, sem sýnir vel hversu skelfilegt batterí Evrópusambandið er. Við verðum að átta okkur á því að þetta er fáránlegt bandalag að mörgu leyti. Ef við horfum á Grikklandi í austri, Spán í vestri og svo Finnland í norðri er himinn og haf á milli þessara þjóða. Það er eiginlega með ólíkindum að bandalagið skuli halda enn þá. Ég fékk það á tilfinninguna í Covid-faraldrinum að þarna nötri allt. Ef fleiri þjóðir ætla að reyna að komast út úr þessum ósköpum vona ég að þær lendi ekki í sama basli og Bretar. Ég bendi líka á, og það kom skýrt fram í andsvörum, að við sáum hvernig Brussel og Evrópusambandið brugðust við og ætluðu að reyna að loka á hlífðarbúnað fyrir heilsugæslu og annað. Þarna bjargaði EES-samningurinn, segir hæstv. utanríkisráðherra, og það er auðvitað alveg frábært ef hann virkaði í þessu tilfelli en það segir okkur samt að við þurfum að vera á tánum og fylgjast vel með því hvað Evrópusambandið er tilbúið að gera og hvernig það er tilbúið að bregðast við ef eitthvað bjátar á. Það segir okkur líka margt um það sem gæti skeð þegar næsti faraldur ríður yfir, ef það verður annar sem við vonum heitt og innilega að gerist ekki, að ekki komi Covid-20 eða Covid-21 eða eitthvað enn þá verra, og þá verðum við að vera undir það búin hvernig heimurinn bregst við. Þess vegna þurfum við að einbeita okkur að því að vera sjálfbær á öllum sviðum, þannig að við þurfum ekki að treysta í blindni á einhverja aðra heldur getum treyst á okkur sjálf. Það held ég að sé næsta og besta skref sem við getum tekið.