150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:05]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hann veltir upp ýmsum hlutum og ég vildi kannski minnast á nokkra. Mannréttindadómstóllinn heyrir ekki undir þennan málaflokk en mannréttindaráð gerir það svo sannarlega og hv. þingmaður bendir réttilega á að það er til lítils að vera að skipta sér af öðrum meðan við erum ekki búin að taka til heima hjá okkur. Samt sem áður, og það kemur fram á bls. 36 í skýrslunni, er staða Íslands á völdum mannréttindavísum þannig að ég held að við getum verið stolt af því hvar við stöndum í samanburði við aðra þegar kemur að jafnréttismálum, friðarmálum, málefnum samkynhneigðra og barna, þar erum við nr. 1, sömuleiðis varðandi lýðræðið, þar erum við nr. 2. Síðan eru hér fleiri þættir án þess að ég ætli að fara yfir það allt saman. En við eigum auðvitað alltaf að vera með augun á því að það er til lítils fyrir okkur að vera að gagnrýna aðra ef við erum ekki sjálf með hlutina í lagi.

Varðandi EES þá sagði ég áðan að ég teldi að við hefðum tekið bestu molana og skilið hina eftir, svona almennt, og ég held að vísu að óbragðið sem margir töldu vera við þriðja orkupakkann hafi ekki komið í ljós, alla vega ekki enn þá og ég á ekki von á því að það verði. En það er ýmislegt sem ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga á og hefur barist fyrir, sem hefur komið í gegnum EES, t.d. varðandi baráttu gegn mismunun á vinnumarkaði. Þegar ég var að byrja í stjórnmálum, gerði það mjög ungur, þá sögðu menn að við tækjum allt frá Danmörku af því að við erum auðvitað ekki að finna upp hjólið. Margt af því sem okkur finnst vera sjálfsagt fáum við í rauninni annars staðar frá, ákveðna sérfræðiþekkingu eða vinnu fyrir okkur í ýmsum málum, m.a. frá EES. Ég ætla ekkert að ræða ESB-málin (Forseti hringir.) nema hv. þingmaður vilji sérstaklega að ég geri það, en hann hittir naglann á höfuðið sem er kjarni máls að það gætir enginn (Forseti hringir.) okkar hagsmuna nema við sjálf.