150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:09]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að halda mig eins og ég get við utanríkismálin. Hv. þingmaður minntist á Norðurlandasamstarfið og Covid-faraldurinn er álagspróf á alþjóðasamstarf og ég held að það sé óhætt að segja að Norðurlandasamstarfið komi prýðilega út úr því. Mér þykir vænt um að heyra þegar hér er verið að hrósa starfsfólki utanríkisþjónustunnar, sérstaklega í borgaraþjónustunni, og þar unnu Norðurlöndin saman sem einn maður að koma Norðurlandabúum heim. Þegar var verið að skipuleggja flug skipti engu máli frá hvaða Norðurlöndum fólk var, Norðurlandabúar gátu gengið inn í þau flug. Fyrir alla var það mikilvægt en þó sérstaklega fyrir smæstu þjóðina í þessu fimm ríkja samstarfi og það erum við. Það er auðvitað alveg til fyrirmyndar. Ég vil ekki særa neinar tilfinningar þannig að ég ætla ekkert að fara yfir það sem hefur kannski ekki gengið jafn vel en það er gríðarlegur stuðningur á Íslandi og öllum hinum Norðurlöndunum við norrænt samstarf. Þar höfum við beitt okkur mjög og munum halda því áfram og það skyldi ekki vera vanmetið. Ég held hins vegar að það sé hægt að gera betur og reyndar held ég að það sé alltaf þannig að þegar menn eru komnir af stað, alveg sama hvað það er, og telja sig vera búna að ná einhvers konar fullkomnun, þá er leiðin bara niður á við. Við eigum alltaf að vera hógvær þegar við erum að lýsa því yfir hvað við erum ánægð með, hvort sem það er eitthvert ákveðið alþjóðlegt samstarf eða eitthvað innan lands, annars fara augun af boltanum.