150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég veit að það er margt gott. Við megum ekki gleyma þessum ferðum sem voru farnar til Kína til þess að ná í alls konar gögn vegna Covid-veirunnar, það var alveg frábært. Ég held að á þessum sviðum getum við verið í góðu samstarfi við Norðurlöndin en það er, eins og ég segi, ekki eins gott við Evrópusambandið vegna þess að þeir voru tilbúnir að loka á hlífðarfatnað. Þess vegna eigum við kannski að einbeita okkur frekar að Norðurlöndunum og taka höndum saman með þeim þannig að Norðurlöndin verði sjálfbær að því leyti að þau eigi nægar birgðir ef eitthvað svona kemur upp á. Það er eitt í þessu sem við gleymum oft að tala um og það eru lyfjamálin. Nú virðist stór hluti lyfja vera upprunninn frá Kína og ég spyr mig oft hvernig það verður ef eitthvað slitnar þarna á milli: Hvar stöndum við þá í lyfjamálum? Ég hugsa að Norðurlöndin geti þar komið að en ef framleiðsla er eingöngu í Asíu eða eingöngu í Kína þá erum við í slæmum málum ef eitthvað rofnar í þeim málum og ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það er. Við þurfum bara að skoða það.