150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:34]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Eins og hv. þingmaður veit þegar kemur að Schengen og landamæravörslu þá er það ekki undir utanríkisráðuneytinu komið en ég hef hins vegar frá fyrsta degi, bæði í því sem snýr að Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, lagt á það áherslu að við hugum að því að vera helst í forystu við opnun, í það minnsta þegar kemur að aðferðafræðinni. Á sama hátt hef ég falið öllum sendiráðunum að hafa samband við þau ríki sérstaklega þar sem gengið hefur best um möguleika á því að vera með tvíhliða opnanir. Þar sem þetta er á málefnasviði annarra ráðherra þá hefur ríkisstjórnin í heild sinni verið að skoða hvað við getum gert sjálf og hvernig sé best að haga þessum málum. Það liggur alveg fyrir að það skiptir engu máli, eins og hv. þingmaður vísaði til, í hvaða aðgerðir verður farið innan lands; á meðan efnahagskerfin opnast ekki þá munum við ekki ná árangri.

Það sama er með netöryggi, í Stjórnarráðinu eru þau mál á hendi samgönguráðherra. En það breytir því ekki að okkar sýn er skýr og allir eru meðvitaðir um að við eigum að taka þau mál mjög alvarlega og fylgja fordæmi annarra ríkja sem við erum í bestu samstarfi við. Öll ríki sem við berum okkur saman við hafa tekið netöryggismálin og sérstaklega 5G málin mjög föstum tökum.

Varðandi forgangsröðun utanríkisþjónustunnar hefur nú þegar verið tekin ákvörðun um það, og ég lýsti því yfir fyrir nokkru og það tekið fyrir sérstaklega í umræðunni, og ég hef falið hópi að koma með tillögur um hvernig við getum í framkvæmd forgangsraðað fyrir útflutningshagsmuni. Vonandi varir ástandið ekki of lengi en stóra verkefnið er að forgangsraða verkefnum utanríkisþjónustunnar fyrir útflutningshagsmuni og þá aðila (Forseti hringir.) sem selja vörur og þjónustu því að við munum ekki ná efnahagslegri viðspyrnu fyrr en við náum aftur sömu verðmætatölum þar.