150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:39]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef haft það fyrir reglu að koma í andsvör vegna þess að mér finnst þetta form ekkert voðalega gott og ef þetta væri eins og venjulega biði ég eftir að allar ræðurnar væru búnar og svo hefði ég einhverjar tíu mínútur til að svara öllu. Ég er bara að reyna að koma fram við hv. þingmenn eins og ég myndi vilja að væri komið fram við mig þegar ég var í þeirra stöðu og reyni þess vegna að koma með andsvör eftir hverja ræðu og hef gert það í umræðunni hér í dag. Það er kannski ástæðan fyrir því að ég er ekki að spyrja sérstaklega heldur tel ég að samtalið verði betra og þeir sem taki þátt í því og fylgist með því séu kannski meira upplýstir ef þetta er gert með þessum hætti. En ég er algerlega tilbúinn til að skoða breytingar á því formi.

Almennt varðandi það sem hv. þingmaður vísaði til þá er staðan bara þessi: Það skiptir engu máli, eins og hv. þingmaður vísaði til, hvað við gerum og hvernig pakkarnir verða búnir til eða hvaða aðgerðir við förum í; meðan landamæri opna ekki fer efnahagslífið ekki af stað eins og við þekkjum það. Það á ekki bara við um Ísland heldur allar þjóðir sem við berum okkur saman við. Kannski er einhver þjóð sem getur haft algerlega lokað, ég þekki það ekki, en það er örugglega ekki þjóð sem er með mikla velmegun eða hagsæld hjá sínum íbúum. Þetta er umhverfið sem við erum að eiga við og við verðum að vera mjög meðvituð um og vinna að því öllum árum að opna landamæri án þess að ögra þeim árangri sem náðst hefur. Við eigum auðvitað að stíga varlega til jarðar. En það eru ýmsar leiðir færar. Við eigum sömuleiðis, eins og hv. þingmaður vísar til og það hef ég gert, að tala fyrir því að við vinnum saman með öðrum þjóðum að þessu marki. En við eigum hins vegar ekki að bíða eftir frumkvæði einhvers annars. Það er ekkert unnið með því. Við megum ekki sitja með hendur í skauti. Þeir fiska sem róa.