150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:52]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni aftur. Án þess að ég sé búinn að skoða málið með þeim hætti að ég geti úttalað mig um það nákvæmlega held ég að hugsunin á bak við það sé að það væri mjög æskilegt að við værum með einhvern vettvang sem getur brugðist við óvæntum atburðum eins og þessum. Auðvitað var brugðist við, í það minnsta þegar kemur að utanríkisráðherrunum, m.a. vegna þess að við áttum mjög góðan fund með öllum ráðherrunum í Borgarnesi. Hann var ekkert langur en það var þó þannig að við vorum þarna í einhvern tíma og okkur gafst gott tækifæri til að kynnast ágætlega. Það gerir það að verkum að þegar svona aðstæður koma upp og það þarf að halda fjarfund þá er það gert með litlum fyrirvara og við erum búnir að halda sex slíka, bara utanríkisráðherrarnir. Síðan hef ég átt tvo frekar en þrjá með þróunarsamvinnuráðherrunum og einn, ef ég man rétt, frekar en tvo með varnarmálaráðherrunum. Þetta held ég að sé komið til að vera en við þurfum að hafa eitthvert skipulag til staðar. Við erum búin að efla mjög mikið NORDEFCO, sem er öryggis- og varnarsamstarfið. Eins og ég nefndi í framsöguræðu minni eru Finnar og Svíar mjög virkir þátttakendur í samstarfi við Atlantshafsbandalagið. Ég á frekar von á því án þess að ég viti hvað verði endanlega í þeirri skýrslu, en það kæmi mér á óvart ef í skýrslu Björns Bjarnasonar verði ekki tekið nokkuð þétt á þessu. Norðurlandasamstarfið fram til þessa hefur staðist álagsprófið, sérstaklega þegar kemur að borgaraþjónustunni sem ég vék að áðan. Það á auðvitað eftir að koma í ljós þegar kemur að opnun landamæra. Það er ekki nóg að við séum á þeim stað, það þurfa allir að vera sammála um aðferðafræðina í því. Auðvitað þvælist það fyrir að staðan í löndunum er misjöfn og það allt saman en það breytir því ekki (Forseti hringir.) að við eigum sem Norðurlönd að vinna saman að þeim málum.