150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[16:02]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla fyrst og fremst að fara í það sem kemur að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og fara aðeins yfir það í stuttu andsvari hvernig þau mál standa. Alþjóðaviðskiptastofnunin er nokkuð sem kom í kjölfar GATT og allt þetta er byggt upp undir forystu Bandaríkjamanna. Það er hins vegar ekki bara bundið við Bandaríkjamenn að menn hafa talið að fyrirkomulagið eins og það er núna hafi t.d. ekki gert ráð fyrir hlutum eins og þeim að sami aðili gæti verið efnahagslegt stórveldi og þróunarríki, sem þýðir að hann fær ákveðna forgjöf, getum við sagt, í þeim samningum sem Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur gert. Síðan er ekki heldur hægt að neita því að það hefur ekki gerst mjög mikið með nýja samninga hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Hún var hugsuð sem heil regnhlíf, það væri allt saman undir því og við værum bara með einn markað í heiminum en eftir Úrúgvæ-ferlið hefur ekki mikið skeð, því miður, og lítið verið að gerast. Það hafa Bandaríkjamenn og fleiri verið ósáttir við og sömuleiðis töldu þeir að þarna væri mismunun. Það breytir því ekki að það er mjög vont að úrskurðarnefndin sé ekki til staðar af því að hún er ekki mönnuð, það næst ekki samstaða um mönnun í hana. Það þýðir að þegar koma upp deilumál milli ríkja sem byggja á viðskiptasamningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er ekki hægt að skera úr um þau, það eru ekki nægilega margir dómarar í dómstólnum til að svo megi verða. Okkar afstaða hefur verið að við leggjum alla áherslu á að viðhalda Alþjóðaviðskiptastofnuninni og við erum í samskiptum við þau ríki (Forseti hringir.) sem núna eru að leita að öðrum leiðum til þess og við höfum sömuleiðis hvatt Bandaríkjamenn til að leita allra lausna í þessu því að það eru ekki góðar fréttir þegar Alþjóðaviðskiptastofnunin getur ekki leyst úr deilumálum.