150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[16:17]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Það sem ég tek með mér úr þessari umræðu, ég ætla að reyna að fara yfir það á þessum stuttan tíma, er í fyrsta lagi að mér finnst ánægjulegt hvað umræðan er breið og hún hefur breikkað mjög mikið frá því að ég tók við embætti ráðherra utanríkismála. Það segir mér bara það að vitneskja þingmanna, og ég vona þjóðarinnar líka, er að verða meiri um alþjóðamál í víðu samhengi því að hagsmunir okkar liggja víða. Við höfum takmarkaðan mannafla og fjármuni og það er mikilvægt að við tökum pólitíska umræðu um það hvernig við nýtum þessa hluti sem best. Mér þykir líka vænt um að heyra allar þessar þakkir til borgaraþjónustunnar. Það sem ég vil segja er að borgaraþjónustan er alltaf til staðar. Hún hefur bara ekki verið áberandi í fjölmiðlum. Þau sem þar vinna að jafnaði, þó að þau séu ekki mörg, hafa alltaf unnið mjög gott starf við að hjálpa Íslendingum sem eru í vanda annars staðar. Hins vegar held ég að einn þáttur sem við höfum gert til að breyta ráðuneytinu, og mér finnst þetta allt saman spila saman, hafi hjálpað núna. Við erum að reyna að koma eins miklum upplýsingum á framfæri og við getum um hvað við erum að gera, svo það sé sagt. Það hjálpaði til þegar kom meiri þjálfun, ekki bara í upplýsingadeildina heldur almennt og sú hugsun að koma upplýsingum áleiðis og þegar þessar aðstæður komu upp gekk stór hluti út á það. Sömuleiðis held ég að við getum sagt að sveigjanleikinn í ráðuneytinu sé mikill og gerði það að verkum að um 140 manns, þegar mest var, voru vinna að þessum málum í ráðuneytinu. Síðan, virðulegi forseti, höfum við fengið hvatningu til að gera ýmsa hluti og mér finnst það bara gott, við höfum ekki náð neinni fullkomnun þótt við séum ánægð með þetta starf. Það er hvatning frá hinum ýmsu hv. þingmönnum og við tökum því bara af mjög mikilli jákvæðni.

Hér er mikil umræða um opnun landamæra og það er mjög eðlilegt. Af hverju er sú umræða? Það er vegna þess að við verðum að ná efnahagslegri viðspyrnu. Við verðum að gera það. Meðan við erum lokuð þá gerist það ekki. Síðan er það okkar að finna leiðir til að opna landið og við gerum það m.a. með sérfræðingum þannig að það séu minnstar líkur á því að við sjáum hér mikið bakslag í smiti. En ég veit ekkert frekar en nokkur annar hvort þessi veira verður hér í mánuð í viðbót eða tíu mánuði eða tíu ár, ég hef ekki hugmynd um það. Þetta er bara breytt heimsmynd og við þurfum að taka mið af því. En meðan við opnum ekki mun okkur að blæða út fjárhagslega, svo það sé sagt. Þetta er ekki sjálfbært og við höfum ekki efni á þessu eins og staðan er núna, það liggur alveg fyrir. Ég veit ekki af hverju sumir í þjóðfélaginu mæta núna og halda að það sé hægt að ganga á ríkissjóð eins og hann sé ótæmandi uppspretta. Það er ekki þannig. Peningarnir fara mjög hratt. Sem betur fer vorum við vel undir þetta búin fjárhagslega. En þetta mun breytast mjög hratt og við þurfum að hugsa allar leiðir til að fá efnahagslega viðspyrnu aftur.

Hér hafa öryggismálin verið rædd í víðara samhengi en oft áður og það er mjög gott. Hér var talað um hluti sem mér fannst gott að heyra frá hv. þingmönnum, um netöryggismál, 5G og annað slíkt. Það hefur ekki verið í umræðunni áður og það er mjög mikilvægt að taka þessa umræðu. Ég hef svo sannarlega fundið það á mínum fundum og komið því áleiðis inn í ríkisstjórn og þjóðaröryggisráð og annars staðar og svo sem mitt ráðuneyti hvaða áhyggjur við höfum af þessum málum. Við teljum þetta vera grafalvarlegt mál sem þurfi að taka nákvæmlega sömu tökum og þau lönd gera sem við erum í mestum samskiptum við og þá er ég sérstaklega að vísa til Norðurlandanna. Síðan þurfum við að ræða varnarmálin. Og ef varnarmál hafa einhvern tímann verið mikilvæg þá er það núna því við vitum ekki hvernig mál munu þróast. Það er mjög ólíklegt að þau muni þróast að öllu leyti í jákvæðari áttir. Það er auðvelt að ímynda sér að ýmsir aðilar sem hafa ekki góðan ásetning sjái tækifæri í þeirri stöðu sem er nú uppi. Við erum mjög lánsöm, virðulegi forseti, að vera í varnarsamstarfi, við erum í Atlantshafsbandalaginu og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Það hefur skilað okkur miklu fram til þessa og við þessar aðstæður er mjög gott að við séum aðilar að því samstarfi.

Síðan, svo það sé sagt, er það algerlega skýrt og það hefur verið tekin ákvörðun um það og við erum að vinna að því að utanríkisþjónustan forgangsraðar núna í þágu útflutningshagsmuna, af ástæðum sem ég nefndi, sem aldrei fyrr. Auðvitað hefur það alltaf verið forgangsmál en ég held að við öll, Íslendingar, þurfum að vera meðvituð um það að nú þurfum við að afla tekna vegna þess að við erum ekki sjálfbær eins og er. Við erum að fara í gegnum mjög erfiða tíma og þurfum að reyna að koma okkur út úr því eins hratt eins og mögulegt er. Þá ræða menn eðlilega hagræðingarmál. Frá því að ég tók við hef ég litið svo á að það verði alltaf hlutverk okkar að hagræða. Eina skiptið sem sendiráðum hefur verið lokað í góðæri er á undanförnum árum. Það hefur aldrei verið gert áður. Þegar menn skoða rekstur utanríkisþjónustunnar þá hefur hún ekki fengið aukningu, heldur minnkun ef við berum saman við rekstrartölur frá 2007, 2008. Það er mjög ólíkt því sem maður getur séð á öðrum sviðum. Síðan verða þingmenn að ákveða það hvernig þeir telja best að forgangsraða. Ég held hins vegar að hafi einhvern tímann verið þörf á því að halda uppi þeirri þjónustu og hagsmunagæslu sem við höfum haft á vegum utanríkismála þá sé það núna. Ég er ansi hræddur um að við munum sjá allra handa verkefni sem við höfum ekki séð mjög lengi og við héldum að væru farin af borðinu og ég nefndi þau í ræðu minni áðan.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er farin en hún beindi til mín spurningum og athugasemdum og ég veit ekki af hverju hv. þingmaður sagði að ég væri að tala um EES því ég var að tala um ESB. Það er stór munur þar á. Ég var að tala um ESB og ég var að tala um verndarstefnu ESB í viðskiptamálum, ekki bara í tollum heldur sömuleiðis tæknilegum viðskiptahindrunum. Ég var ekki að tala um EES, það er ekki tollabandalag. Þess vegna getum við gert okkar eigin fríverslunarsamninga. Ef við færum inn í ESB þá hefðum við ekki frelsi fyrir það lengur. Þá mun Brussel gera það fyrir okkur. Varðandi landbúnaðarsamningana, tollasamning við Evrópusambandið, er það nokkuð sem við höfum verið að skoða og ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki viss um að það sé besti samningur sem við höfum gert og þegar kemur að okkar viðskiptastefnu erum við mjög frjálslynd og, eins og ég nefndi, mun frjálslyndari en ESB. Það sýnir sig bara þegar menn bera saman tollfrelsi ESB og Íslands, 90% á Íslandi, 26% í Evrópusambandinu. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir. Hér var nefnt Brexit og þar sem tollasamningurinn gerður á sínum tíma við Evrópusambandið með Bretland þar inni og mjög stór markaður fyrir landbúnaðarvörur okkar er í Bretlandi, innflutningur frá þeim líka mikill, finnst mér eðlilegt að tekið sé tillit til þess, en fram til þessa hefur verið erfitt að ræða það við Evrópusambandið.

Virðulegi forseti. Ég vil aftur lýsa yfir sérstakri ánægju minni með umræðuna í dag, mér hefur fundist hún vera góð og málefnaleg og ég þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í henni. Þeir komu allir vel undirbúnir til leiks og búnir að kynna sér málin mjög vel, komu með góð innlegg og ég hef fylgst með öllum þeim ræðum og kom með svör við þeim öllum nema seinni ræðu hv. þm. Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, það er ekki út af neinu öðru en það var síðasta ræðan á undan minni og ég sá ekki sérstaka ástæðu til að bregðast við einhverju sem þar kom fram að öðru leyti en almennt í mínum lokaorðum. Það er gott að hafa umræðu sem þessa um jafn mikilvægan málaflokk og því meiri umræðu sem við getum haft hér í þingsal, því ánægðari er ég. Ég held að við séum núna búin að stíga skref sem við eigum ekki að stíga til baka, þ.e. að skipta upp umræðunni um utanríkismálin, og ég held að við getum gengið lengra. Ég ætla ekki að fara að útlista það, ég er bara að lýsa yfir vilja mínum til þess að taka þátt í slíkri umræðu en auðvitað er það hv. þingmanna að ákveða hvernig slíkt fyrirkomulag verður.