150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar, Willum Þór Þórssyni, fyrir framsögu hans. Ég vildi koma aðeins inn á sveitarfélögin við hv. þingmann. Það kom fram á fundi sveitarfélaganna með nefndinni að lítið samráð hafi verið haft við sveitarfélögin í þessum aðgerðum og þau hafi þurft að taka á sig mikið tekjufall og útgjaldaaukningu. Þeir fulltrúar Reykjavíkurborgar sem komu á fund nefndarinnar lögðu t.d. áherslu á það að fjárframlög til sveitarfélaganna frá ríkinu væru nauðsynleg. Auk þess hefur jöfnunarsjóðurinn orðið fyrir tekjufalli, allt upp í 4 milljarða, þannig að það er óvíst með aðkomu hans eins og hann hefur haft burði til áður. Gleymum því ekki heldur að 80% af útsvarsstofni sveitarfélaganna eru laun. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er þess að vænta að ríkisstjórnin komi með tillögur um sérstakan beinan stuðning við sveitarfélögin?