150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni mjög góða spurningu. Það er mikilvægt að draga fram að við áttum að venju mjög gott samtal við sveitarfélögin og fengum mjög yfirgripsmikla umsögn. Við ræddum m.a. við fulltrúa Reykjavíkurborgar og fengum horfa á þær sviðsmyndir sem þeir eru að fjalla um og bæði hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg kom fram að þeir söknuðu þess að það væri meira samráð. Tekjufallið er mikið eins og hjá ríkissjóði og heimilunum og fyrirtækjunum og við finnum öll fyrir því. Sveitarfélögin eru að bregðast við því og það er mikil ábyrgð á þeim. Það er krafa um að þau gefi afslátt af fasteignasköttum og fresti greiðslum o.s.frv. Ég held að áður en teknar verða einhverjar ákvarðanir um hvort það verði beinir styrkir frá ríki til sveitarfélaga, og ég hef ekki heyrt að búið sé að taka neinar ákvarðanir um slíkt, sé mikilvægt að þetta samráð verði aukið, að það verði meira og þéttara.