150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni og fór um víðan völl. Það er allt í lagi. Af mörgu er að taka þegar kemur að fjármálum ríkisins. En mig langar í þessu fyrsta andsvari að staldra við það sem hv. þingmaður kom að í lokaorðum sínum vegna þess að það skiptir máli hvernig við förum í gegnum þessa kreppu og hvernig við komum út úr henni og hvernig við bregðumst við þegar við komum út úr henni. Í framsöguræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar um nefndarálit meiri hlutans ítrekaði hann það að fjárlög ársins eru í gildi. Það er mikilvægt að halda því til haga að ekki hefur verið skorið neins staðar niður. Við erum að tala hér um það sem við ætlum að auka í. En það liggur hins vegar líka alveg ljóst fyrir að það verður gat vegna þess að ríkissjóður mun einnig fá minni tekjur, vegna til að mynda atvinnuástandsins. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann, sem er að leggja til alveg gríðarlega kostnaðarmiklar tillögur, hvernig hann sjái þetta fyrir sér. Ég er sammála honum um að í framtíðinni eigi ekki að þurfa að skera niður. En hvernig vill hann þá, ef hann gæti útskýrt aðeins betur, fara í það verkefni að auka í núna? Því að þetta er vandasamt.