150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er vandasamt. Mér finnst sérkennilegt að heyra frá þingmanni Vinstri grænna að þetta séu kostnaðarsamar tillögur. Ég var í stjórnarsamstarfi með þessum blessaða flokki. Þá réðumst við í talsvert metnaðarfyllri tillögur en hér eru bornar á borð, þar á meðal — treystið okkur þá, þegar við vorum saman í ríkisstjórn — að setja námsmenn á atvinnuleysisbætur það sumar. En það er augljóslega ekki stefna Vinstri grænna í dag þar sem þið fellduð það í morgun að taka það skref þannig að mér finnst Vinstri grænir ekki vera sami flokkur og ég starfaði með.

Ég hef verið að kalla eftir auknum kostnaði, já. Það er réttlætanlegt, finnst mér, í svona ástandi að ráðast í kostnaðarmiklar og metnaðarfullar tillögur. Ég veit að við þurfum að greiða það á einhverjum tímapunkti að sjálfsögðu, en einmitt eftir síðasta hrun ákváðu Samfylkingin og gömlu Vinstri græn að fara hina svokölluðu blönduðu leið. Reynt var að hlífa velferðarkerfinu eins og kostur var. Þetta hefur verið staðfest af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD og fleiri aðilum að hafi verið mjög skynsamleg leið, að vernda velferðarkerfið og skólakerfið en huga síðan að ákveðnum tekjuleiðum. Það er sú umræða sem við eigum eftir að taka, hvaða tekjuhugmyndir þið í Vinstri grænum hafið til að mæta þeirri stöðu sem óneitanlega blasir við. Mín reynsla af þessu blessaða ríkisstjórnarsamstarfi er að Sjálfstæðisflokkurinn muni stjórna þessu. Hann mun skera niður. Það er sem sagt ykkar í Vinstri grænum að standa í lappirnar og koma í veg fyrir það. Við erum í stjórnarandstöðu. Við reynum að veita ykkur málefnalegt aðhald en þið verðið að standa með okkur í að verja velferðarkerfið og skólakerfið. Þið eruð í samstarfi með flokki sem hefur ekki þá hugmyndafræði, verkin sýna það. Þannig að ég vil að snúa því upp á hv. þingmann í ljósi þess að hún kaus að starfa með þessum flokki á þessum tíma, að það er ykkar að verja kerfið, það er ykkar að verja almenning, það er ykkar að verja almannahagsmuni.