150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað sagt en að mér þykir hv. þingmaður slá úr og í í ræðu sinni. Ég held að það sé ekkert feimnismál að tala um að allar aðgerðir sem farið er í hafi kostnað í för með sér. Það er bara staðreynd. En það er jákvætt vegna þess að við erum að bregðast við ástandinu þannig að það er bara útúrsnúningur á orðum mínum ef hv. þingmaður vill láta eins og ég telji það eitthvað neikvætt, svo er alls ekki. En það skiptir máli hvernig það er gert.

Hv. þingmaður talar um að fjölga þurfi þeim sem hafa réttindi til atvinnuleysisbóta en segir á sama tíma að það sé mikilvægt að fólk sé með atvinnu, sé ekki á bótum og ég er alveg sammála því. Hér er verið að leggja til yfir 4 milljarða til að styrkja einmitt það að námsmenn komist í vinnu í sumar. Ég hef ekkert heyrt hv. þingmann tala um það. Telur hann það ekki jákvæða aðgerð?

Svo verð ég að spyrja að því hér að lokum, vegna þess að ég finn ekkert um það í nefndaráliti hv. þingmanns og heyrði það ekki heldur í ræðu hans, hvort hann hreinlega samþykki eða styðji þessa fjáraukatillögu sem hér er sett fram. Í rauninni hefur ekkert komið fram í orðum hans um hvort hann styðji hana og þær tillögur sem hér er verið að bæta við alls staðar. Hins vegar hefur hann talað um ýmsar aðrar aðgerðir sem hann talar fyrir og talar um í sínum breytingartillögum.