150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég svara því fyrst: Já, Samfylkingin styður tillögur ríkisstjórnarinnar. Við höfum gert það. Við styðjum góðar tillögur. En hvernig stendur á því að þið styðjið engar tillögur frá stjórnarandstöðunni? Var ekki verið að tala um að við ættum að vinna saman, við værum í sama báti? Við í ólíkum flokkum í stjórnarandstöðunni náum saman um tilteknar breytingartillögur, Samfylkingin, Miðflokkurinn, ólíkir flokkar, og sýnum þá ábyrgð að snúa bökum saman með tillögur sem við getum sameinast um. En hvernig stendur á að þið í Vinstri grænum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum styðjið ekki eina einustu tillögu frá okkur? Við styðjum ykkar góðu tillögur og erum ekkert feimin við það. Í svona ástandi þurfa menn aðeins að lyfta sér upp úr skotgröfunum.

Varðandi störfin og bæturnar — já, við viljum búa til og verja störf. Það er ekkert svoleiðis hjá ykkur. En við viljum líka hækka bæturnar því að þær eru skammarlega lágar, 290.000 kr. Hv. þingmaður hlýtur að vera sammála mér um að það er allt of lágt. Það er hægt að gera bæði. Varðandi námsmennina þá er þessari ríkisstjórn ekki að fara að takast að skaffa störf fyrir alla námsmenn. Það er alveg ljóst. Tillaga Samfylkingarinnar lýtur að því að þeir námsmenn sem munu ekki fá störf í sumar eða geta ekki nýtt sér þau úrræði sem boðið er upp á, geti fengið atvinnuleysisbætur, þeir sem út af standa. En hver voru skilaboðin í dag frá ríkisstjórninni? Nei, nei og nei. Þið fellduð þá tillögu. Aftur enn ein nöturlegu og köldu skilaboðin frá Vinstri grænum til námsmanna. Þetta var ekki svo risavaxin tillaga að þið gætuð ekki stutt hana en hún var þessum hópi mjög mikilvæg, herra forseti.