150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að ég haldi sömu ræðuna aftur og aftur. Já, það er kannski bara ríkt tilefni til þess að halda sömu ræðuna aftur og aftur. Hv. þingmaður segir sömuleiðis að ég vilji gera meira, á sama tíma og það eina sem hv. þingmaður hefur fram að færa á sínum þingmannsferli er að draga úr, gera minna, vera neikvæður og rífa niður. Þetta er það eina sem ég sé frá hv. þingmanni. Ég sé afskaplega fátt uppbyggilegt frá hv. þingmanni. Hvar eru hugmyndir hv. þingmanns til að bregðast við þessu? Ég sé þær ekki. Ég skil ekki alveg tilgang hv. þingmanns í stjórnmálum þegar þetta er eina framlagið hans, viku eftir viku, að draga aðra niður og vera hótfyndinn á Facebook. (BN: Það er ekki umræðan núna.) Nei, þú ert að gagnrýna minn málflutning, ég er að gagnrýna þinn málflutning.

Varðandi opinberu starfsmennina — ég undirstrika að ég er ekkert bara að tala um það, við gerum hvort tveggja, við eflum störfin og búum til störf í einkageiranum sem og opinber störf. Það á að vera forgangsatriði að fjölga hjúkrunarfræðingum. Hv. þingmaður hlýtur að vera sammála því. Gott og vel ef hann vill ekki fjölga sálfræðingum. Ég held reyndar að það eigi að gera það líka, en nú er lag að bæta opinberu þjónustuna og fjölga störfum þar. Það er það. Við erum ekkert að tala um að hið opinbera eigi að gnæfa yfir hagkerfið eða neitt svoleiðis. Hv. þingmaður þarf að hafa í huga að yfir 70% starfa eru í einkageiranum en við höfum séð fækkun opinberra starfsmanna hlutfallslega miðað við fjölgun landsmanna undanfarin tíu ár. Við höfum séð ákall frá menntakerfinu og velferðarkerfinu og félagskerfinu um að það vanti fleiri starfsmenn til að bæta þjónustuna. Ég er ekkert að biðja um mikið, hv. þingmaður. Er ekki rökrétt að lögreglumenn séu fleiri í dag en fyrir tíu árum? Þeir eru færri. Okkur hefur fjölgað ansi mikið. Þannig að þetta er forgangsatriði. Þetta snýst um aðgerðir sem ekki bara við erum tilbúin að ráðast í, hver einasta þjóð í heiminum er að tala nákvæmlega eins og ég. Það er bara einn stjórnmálaflokkur í heiminum sem ég hef fylgst með sem er á móti svona leiðum og það er Sjálfstæðisflokkurinn. (Forseti hringir.) Þetta er 100 ára gömul umræða sem sýnir að í kreppu bætir (Forseti hringir.) hið opinbera í, hvort sem það eru störf eða umsvif, til að milda kreppuna (Forseti hringir.) og komast fyrr upp úr henni.