150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Það sem ég er að gera í stjórnmálum er að ég er í stjórnarmeirihluta. Mín pólitíska sýn er sú að efla hér atvinnulífið sem vinstri menn kalla venjulega sérhagsmuni. Ég stefni að því að efla íslenskt atvinnulíf, gera það fjölbreyttara til þess að samneyslan verði öflug. Við getum gert meira þar. Þegar ég sé fyrir mér hér tímabundið ástand og þarf að bjarga, sem er hugsað sem tímabundið, þá dettur mér ekki fyrst í hug að fjölga störfum hjá hinu opinbera en mér gæti dottið hins vegar í hug að fara í góðar fjárfestingar á vegum hins opinbera sem einkaaðilar ynnu síðan að mestu. Það gæti verið mikilvægt. Mín störf hér fara ekki fram á samfélagsmiðlum, ég er í stjórnarsamstarfi og mér heyrist hv. þingmaður augljóslega ekkert vita hvað er að gerast þar, hann kemur bara hérna með sömu ræðuna hvert einasta skipti sem hann kemur upp í ræðustól, aldrei neitt nýtt. Alltaf þarf að bæta í hér og þar og hann segir alltaf: Það er mjög lítið. En þegar allt er tekið saman þá er það bara mjög mikið. Við þurfum að huga að því, og menn verða að fara að átta sig á, hvar verðmæti verða til í byrjun og hvað við þurfum að gera til þess að geta gert þessa mikilvægu samneyslu betri og fjölbreyttari. Að hún sé unnin af ríkisstarfsmönnum geri ég enga athugasemd við, í samneyslunni. Ég er alls ekki á móti ríkisstarfsmönnum, ég hef meira að segja sjálfur verið ríkisstarfsmaður þótt það hafi ekki verið lengi á mínum starfsferli.