150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Miðflokkurinn hefur frá upphafi þeirra efnahagslegu hamfara, ef svo má að orði komast, sem nú ganga yfir þjóðina vegna veirufaraldursins lagt áherslu á að gripið verði til tímanlegra og stórra almennra aðgerða svo lágmarka megi það efnahagslega tjón sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að grípa til margra takmarkaðra aðgerða, gera þetta í smáskömmtum sem gerir það erfiðara nú en áður að ná því mikilvæga skjóli fyrir atvinnulífið og heimilin sem nauðsynlegt er.

Miðflokkurinn hefur stutt allar tillögur ríkisstjórnarinnar í þeim aðgerðum sem snúa að því að lágmarka það tjón sem veirufaraldrinum hefur valdið okkur. Miðflokkurinn styður þennan aðgerðapakka tvö með fyrirvara þó um að gera þurfi betur og ég mun koma nánar inn á það á eftir. Miðflokkurinn hefur á fyrri stigum þessa máls almennt í samstarfi við minni hluta nefndarinnar lagt fram breytingartillögur sem allar hafa verið felldar af ríkisstjórnarflokkunum og komið var inn á hér fyrr. Auk þess hefur Miðflokkurinn birt í fjölmiðlum fjölmargar tillögur og ábendingar um hvað sé hægt að gera til að lágmarka tjónið og við höfum einnig sent forsætisráðuneytinu tillögur eins og óskað var eftir í tölvupósti. Hæstv. forsætisráðherra óskaði eftir tillögum í tölvupósti og við höfum gert það. Miðflokkurinn hefur því lagt mikið af mörkum til þess að koma heimilum og fyrirtækjum í skjól þar til að efnahagskerfið nær sér á ný og hingað fara að streyma ferðamenn aftur og útflutningur og útflutningsgreinarnar ná sér að fullu, sem við vonum að sjálfsögðu að verði sem fyrst.

Starfið innan fjárlaganefndar hefur verið viðamikið á þessum fordæmalausu tímum. Það þekkja allir nefndarmenn sem hafa sótt marga fundi vegna þeirra björgunaraðgerða sem hér hafa verið til umræðu og hafa verið lagðar fram. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og góðan vilja á vettvangi nefndarinnar um aðkomu minni hlutans að tillögugerðinni hefur sú ekki orðið raunin í verulegum mæli. Því miður hefur meiri hlutinn ekki þegar á hólminn er komið stutt tillögur minni hlutans, tillögur Miðflokksins, og ekki verður annað séð en að leita megi orsaka þess í raun og veru í andstöðu fjármálaráðuneytisins. Það er mín skoðun. Sé það raunin er um óeðlileg afskipti framkvæmdarvaldsins af fjárveitingavaldinu að ræða. Það vekur upp spurningar um hvert raunverulegt hlutverk Alþingis er í þessum grundvallarstörfum lýðræðislegra kjörinna fulltrúa. Eins og ég sagði áðan telur Miðflokkurinn að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu frumvarpi gangi ekki nógu langt til að mæta brýnni þörf fyrir nauðsynleg úrræði á þessum erfiðu tímum fyrir heimilin og atvinnufyrirtæki landsmanna. Miðflokkurinn leggur því fram eigin breytingartillögu við frumvarpið auk breytingartillagna í samstarfi við aðra þingmenn í minni hluta nefndarinnar.

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin leggur upp með hér eru að sjálfsögðu allar mikilvægar og þar vil ég nefna t.d. félagslegu úrræðin. Þau eru mikilvæg og það er margt ágætt hvað þann málaflokk varðar í þessu frumvarpi. Við þurfum einnig að beina sjónum okkar að mikilvægi þess að þeir sem eru atvinnulausir geti sótt sér menntun og það er ekki nefnt í frumvarpinu. Það ætti t.d. að skoða og veita ívilnanir til að fólk geti farið í nám í greinum þar sem skortur er. Við verðum að reyna að nota þá stöðu sem við erum í til þess að búa í haginn fyrir framtíðina og auka nýliðun í mikilvægum stéttum, eins og á meðal hjúkrunarfræðinga. Það þarf hvata til þess og það kostar peninga en ávinningurinn er mikill. Við þurfum að hugsa vel um börnin og líðan barna á þessum erfiðu tímum. Við þurfum að styrkja viðbragðskerfi sem vinnur gegn ofbeldi gegn börnum. Það er gott mál vegna þess að í þessum kringumstæðum hefur það sýnt sig að heimilisofbeldi eykst og er það miður og gjarnan er það þannig að tilkynningum um ofbeldi gegn börnum fjölgar. Í efnahagshruninu 2008 og 2009 var fjölgunin um 40%. Það er gott mál að verið sé að styðja foreldra langveikra barna. Úrræðið nær til foreldra barna 18 ára og yngri og þetta úrræði þarf að víkka og ná til eldri einstaklinga. Styrkurinn til íþrótta- og tómstundastarfs barna er jákvætt mál þar sem miðað er við lágtekjuheimili. Í þeim málaflokki er brýnt verkefni sem væri kjörið að setja fjármuni í þessum aðstæðum. Þar má nefna byggingu íbúða þar sem fatlaðir búa í svokölluðum herbergjasambýlum. Það þarf átak þar til að bæta aðstæður þessa fólks sem eru algerlega óviðeigandi. Það er fjárfesting sem skilar sér og skapar störf. Undir liðnum um vinnumál og atvinnuleysi er gert ráð fyrir sérstöku átaki í því að fjölga tímabundið störfum fyrir námsmenn 18 ára og eldri. Því verður þannig háttað að fyrir hvern einstakling greiði Vinnumálastofnun til sveitarfélags eða opinberrar stofnanir rúmar 316 þús. kr. fyrir hvern mánuð og síðan er gert ráð fyrir sérstöku átaki til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur í sumar og næsta vetur.

Ég tek heils hugar undir það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að afar brýn þörf er á því að bregðast við aðstæðum þeirra þúsunda einstaklinga sem nú eru atvinnulausir og eru að nýta sér rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta. Miðflokkurinn telur hins vegar nauðsynlegt að útvíkka þetta úrræði til félagasamtaka og einkafyrirtækja og flytur breytingartillögu þess efnis við frumvarpið þannig að félagasamtök og einkafyrirtæki geti ráðið þá sem eru án atvinnu til sín með stuðningi ríkisins og þeir hafi forgang sem hafa verið lengi án atvinnu. Það er eitt brýnasta verkefni okkar allra hér að reyna að ná niður atvinnuleysinu og reyna að skapa störf fyrir þá sem eru atvinnulausir og ýmis úrræði sem hægt er að finna. Þó að við náum ekki að finna störf fyrir alla eru ýmis úrræði sem hægt er að bjóða upp á.

Önnur breytingartillaga sem Miðflokkurinn leggur til við frumvarpið varðar tryggingagjaldið. Eins og við þekkjum er gjaldið reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna, því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun, því hærri fjárhæð þarf að greiða í tryggingagjald og því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, því dýrari er hver starfsmaður fyrir sitt fyrirtæki. Gjaldið dregur þannig úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Vaxtarmöguleikar einkafyrirtækja eru því hindraðir með háu tryggingagjaldi. Nú erum við í þannig aðstæðum að það munar um hvert einasta starf, störf verða ekki til af sjálfu sér og stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr atvinnuleysi, eins og ég sagði, sem er það mesta í sögunni. Tímabundin niðurfelling tryggingagjaldsins eins og Miðflokkurinn leggur til gerir fyrirtækjum auðveldara með að halda í starfsfólk sitt á erfiðum tímum og ráða nýtt starfsfólk sem eykur síðan skatttekjur ríkissjóðs. Það er sannarlega ávinningur af niðurfellingu gjaldsins tímabundið.

Tekjur af tryggingagjaldinu voru áætlaðar um 100 milljarðar fyrir árið, 50 milljarðar fyrir sex mánuði, en þegar annar hver maður er orðinn atvinnulaus er nokkuð ljóst að þetta kostar ekki ríkissjóð 50 milljarða að afnema gjaldið út árið, það væri nær að það kostaði í kringum 25 milljarða. Síðan er það hvetjandi fyrir fyrirtækin að ráða inn starfsmenn. Þau hafa þá meira fé til ráðstöfunar og það skilar einnig ríkissjóði. Við leggjum til að það fylgi 10 milljarðar kr. af þessari tillögu okkar sem við teljum afar mikilvæga og vel útfærða.

Ég vil nefna aðeins sveitarfélögin. Ég kom inn á í andsvari við hv. formann fjárlaganefndar, hv. þm. Willum Þór Þórsson, mikilvægi þess að hafa samráð við sveitarfélögin í þeim aðgerðum sem eru fram undan. Sveitarfélögin hafa kvartað yfir því að ekki sé haft samráð við þau í þessum aðgerðum og þau kalla eftir því að það verði sérstakir styrkir til sveitarfélaganna. Ég held að það verði að skoða með opnum huga og af fullri alvöru vegna þess að gleymum því ekki að 80% af útsvarsstofni sveitarfélaganna eru laun og þau hafa orðið fyrir miklu tekjufalli og auk þess útgjaldaaukningu. Auk þess hefur jöfnunarsjóður orðið fyrir tekjufalli. Allt spilar þetta inn í það að ráðstöfunartekjur sveitarfélaganna eru minni og brýnt að mæta því.

Ég fagna því sem hv. þm. Willum Þór Þórsson sagði í andsvari, að mikilvægt væri að skoða þennan möguleika. Ég vil sérstaklega nefna Suðurnesin vegna þess að þar er atvinnuleysi núna 28%. Þetta eru svo ótrúlegar tölur að maður trúir þeim varla, 28% í Reykjanesbæ og 25% á Suðurnesjum öllum. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin leggur hér til, 250 millj. kr., duga skammt í þeim efnum. Ég fagna því einnig frá hv. formanni fjárlaganefndar að nauðsynlegt sé að skoða þetta úrræði.

Í umsögn Samtaka iðnaðarins kemur fram að það þurfi meira að koma til en þessi fjárauki kveður á um og er lögð rík áhersla á nýsköpun í þessum aðgerðum, sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Það eru aðgerðir hvað varðar nýsköpun og nýsköpun skapar störf og verðmæti.

Hvað tekjuskattsleiðina varðar hef ég áður minnst á að þar er þakið of lágt. Um það hafa Samtök iðnaðarins ályktað.

Hvað rannsóknar- og þróunarmál varðar má ekki gleyma því að þegar ríkissjóður setur fjármuni í þennan mikilvæga málaflokk er það fjárfesting. Allar nýsköpunaraðgerðir á tímum mikils atvinnuleysis eru mjög mikilvægar.

Ég vil aðeins koma inn á verðbólguna. Þeir gestir sem voru spurðir út í þróun verðbólgu telja að enn séu tiltölulega skaplegar verðbólguvæntingar. Ég held hins vegar að við þurfum að fylgjast mjög vandlega með því og Miðflokkurinn hefur lagt til að ef sýnt þykir að það sé að koma hressilegt verðbólguskot þá verði að taka vísitölu neysluverðs úr sambandi tímabundið svo við þurfum ekki að ganga í gegnum það sem við gengum í gegnum í efnahagshruninu, að heimilin og fyrirtækin og sérstaklega heimilin og íbúðalán heimilanna fari upp úr öllu valdi. Það má aldrei gerast aftur.

Það sem má kannski gagnrýna sérstaklega við aðgerðir ríkisstjórnarinnar almennt er að margar af þeim ganga of hægt í framkvæmd og eru of flóknar. Hvað stuðningslánin varðar þarf að skoða það að þau verði tengd tekjutapi þannig að hægt verði að fá lán í hlutfalli við tekjutapið og fastan kostnað. Þannig er hægt að ná til fleiri fyrirtækja og nýta takmarkaða fjármuni betur.

Ég vil einnig nefna sérstaklega að Ríkisendurskoðun kom fyrir nefndina og lagði áherslu á það að verði vikið frá skilyrðum þar sem ríkisábyrgð er til staðar, eins og í brúarlánum og stuðningslánum, þá falli þessi ríkisábyrgð niður. Sú eftirlitsnefnd sem kemur til með að starfa þarf að hafa í frammi samtímaeftirlit og málsmeðferðin þarf að vera í samráði milli fjármálastofnana, það er mjög mikilvægt. Við sjáum núna fréttir af því að hlutabótaleiðin hefur verið misnotuð. Það er náttúrlega alveg forkastanlegt af fyrirtækjum að gera slíkt. Við erum öll í þessu saman, að komast upp úr erfiðleikunum saman. Þá eiga menn ekki að stunda slíka ólöglega starfsemi, þurfi menn ekki á því að halda eiga þeir ekki að nýta það.

Nokkur orð um lokunarstyrkina. Það kom fram af hálfu ferðaþjónustunnar að umfang lokunarstyrkjanna er ekki nægilegt. Það væri skynsamlegra að hækka fjárhæðarhámarkið og skoða hvort ekki væri eðlilegt að t.d. veitingastaðir falli þar undir. Hvað stuðningslánin varðar lagði ferðaþjónustan áherslu á að viðmiðunarmörk tekna yrðu hækkuð úr 500 milljónum í allt að 1 milljarð. Greinin leggur áherslu á að gengið sé of langt í skilyrðum um ákveðna hegðun lántaka til framtíðar. Við þurfum að hlusta á slíkar athugasemdir vegna þess að mjög mikilvægt er að aðgerðirnar komi sem fyrst til framkvæmda. Því lengur sem það dregst á langinn, því meira verður tjónið og því erfiðara verður fyrir þessi fyrirtæki að komast af stað aftur þegar fer að birta til. Við vonum svo sannarlega að eitthvað gerist í því, hugsanlega í ágúst. Það kom fram á fundi með ferðaþjónustunni að bundnar eru vonir við það að við förum að sjá hér ferðamenn í ágúst en það verður þá væntanlega í mjög takmörkuðum mæli.

Ég fagna sérstaklega álagsgreiðslunni sem núna er komin fram og minni á það að Miðflokkurinn lagði þetta til á fyrri stigum í aðgerðapakka eitt innan fjárlaganefndar og fékk mjög dræmar undirtektir. En þetta er komið hingað inn og ég fagna því að sjálfsögðu. Það er svolítið skemmtilegt að sjá það að ríkisstjórnin fellir tillögur frá Miðflokknum, frá stjórnarandstöðuflokkunum, og síðan birtast þær í næsta aðgerðapakka á eftir sem tillögur frá ríkisstjórninni. Að sjálfsögðu fagnar maður því en skilur ekki hvers vegna verið er að fella tillögur sem menn hafa einhvern áhuga á, þeir vilja greinilega alla vega ekki að stjórnarandstaðan leggi þær fram.

Ég legg áherslu á að við fylgjumst vel með þróun efnahagsmála. Það er mjög góður kafli í nefndaráliti meiri hlutans á bls. 4 og 5 þar sem fjallað er um efnahagshorfur og þróun, sviðsmyndir. Þetta eru því miður svo sem ekki bjartar sviðsmyndir en ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir alla þingmenn að kynna sér þennan kafla sérstaklega í nefndarálitinu. Þar er margt fróðlegt og við erum að sjá náttúrlega mjög erfiðar tölur hvað varðar hagvöxtinn. Ísland sker sig úr gagnvart öðrum Norðurlöndum með þeim hætti að hér verði samdrátturinn meiri en þar og í fleiri löndum og það er að sjálfsögðu áhyggjuefni.

Ég sé að tími minn er á þrotum. Að lokum vil ég segja að það eru að sjálfsögðu í frumvarpinu aðgerðir og úrræði sem eru mikilvæg. Það þarf hins vegar að sjá til þess að þetta gangi hratt fyrir sig. Brúarlánin eru ekki enn þá komin til framkvæmda. Stuðningslánin verða með sama hætti. Framkvæmdaþátturinn í þessu stenst ekki nógu vel og þarf að gera bragarbót á. Ég vona svo sannarlega að meiri hlutinn og ríkisstjórnin ýti á eftir því vegna þess að það er afar mikilvægt að þetta skili sér til fyrirtækja sem allra fyrst og að félagslegu úrræðin skili sér til þeirra sem þurfa á því að halda og til heimilanna þannig að við getum unnið áfram í því saman að lágmarka það tjón (Forseti hringir.) sem við stöndum frammi fyrir (Forseti hringir.) í þessum erfiðu aðstæðum, minnug þess að þetta eru tímabundnar aðstæður. (Forseti hringir.) Vonandi komum við til með að sjá birta til innan skamms.

(Forseti (HHG): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)