150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Pólitík er leikur sem er spilaður með annarra manna líf og peninga. Stundum er leikurinn spilaður í þágu allra og stundum bara í þágu þeirra sem spila leikinn. Yfirleitt er leikurinn hins vegar í þágu ákveðins hóps umfram annars sem getur verið bæði jákvætt og neikvætt. Er verið að bæta kjör fátækra eða styrkja stöðu útgerðarinnar? Er verið að auka lýðræðisleg réttindi allra eða vernda náttúruna eða er einungis verið að hugsa um sitt eigið pólitíska rassgat? Nýleg tilvitnun í formann stjórnmálasamtaka sýndi hvernig góðum málum sem flestir eru sammála um er fórnað í pólitískum leikaraskap. Þar var sagt, með leyfi forseta:

„Því færri óumdeildum málum sem ríkisstjórnin komi áfram, þeim mun þrengra verði um „sérstök áhugamál“ ríkisstjórnarinnar.“

Þessi ummæli minna óneitanlega á önnur eldri ummæli annars formanns stjórnmálasamtaka, með leyfi forseta:

„Ég gerði öll mál tortryggileg og fylgdi þeirri reglu veiðimannsins að maður má ekki einungis kasta flugu sem manni finnst falleg því að maður veit aldrei hvaða flugu laxinn tekur. Ég tók því upp öll mál, jafnvel þó að ég væri í hjarta mínu samþykkur þeim, og hjólaði í þau því að ég leit á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu.“

Hvort tveggja er dæmi um viðhorf í pólitíska leiknum sem leiða til verri niðurstöðu fyrir alla þar sem góð mál sem gætu bætt líf fólks eru síður samþykkt og peningum er eytt í óþarfa sýndarrifrildi sem hefur þann eina tilgang að láta þann sem skammast líta betur út en þann sem er skammaður. Nýleg umræða um orkupakka þrjú er kristaltært dæmi um slíkt sýndarrifrildi. Þar þurfti strámann til að beina athyglinni frá spillingarsamkrulli um sendiherrastóla og ummælum um typpi og skrokka. Var til betra tækifæri en tiltölulega flókið mál um orkuauðlindir og útlendinga? Úr varð eitt verst rökrædda mál þingsögunnar sem kostaði tugi milljóna en skilaði samt tilætluðum árangri fyrir pólitískt gjaldþrota stjórnmálamenn. Hversu sorglegt er það? Pólitík er nefnilega leikur sem er spilaður með annarra manna líf og peninga og í slíku neyðarástandi sem við stöndum frammi fyrir nú er meira undir en nokkru sinni áður. Það er því nauðsynlegt að minna á þær öfgar sem pólitíkin getur boðið upp á áður en sagt er: það eru allir að gera sitt besta. Ég endurtek: Það eru allir gera sitt besta. Það er mitt mat á þeim viðbrögðum og aðgerðum sem lagðar hafa verið fram. Það er hins vegar annað mál hvort hið besta sé nóg og sitt sýnist hverjum um það.

Frá því að Covid hófst hafa aðstæður breyst mjög mikið og auðvelt að segja að fyrstu viðbrögð hefðu getað verið betri út frá þeim upplýsingum sem við höfum fengið síðan. Þegar fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru kynnt voru ýmis teikn á lofti um alvarlegra ástand og orðin „betra að gera meira en minna“ eru ansi tómleg enn sem komið er. Margir umsagnaraðilar hafa kallað eftir umfangsmeiri aðgerðum en ríkisstjórnin hefur dregið samt upp ákveðnar línur og einungis tíminn mun leiða í ljós hvort þær línur séu nægilega framsæknar til að takast á við ástandið og hvort nægilega tímanlega sé gripið til aðgerða eða ekki. Efnahagsholan sem blasir við okkur kom mörgum á óvart vegna þess hversu skyndilega hún varð til og hvers vegna hún myndaðist. Áður hafa komið upp alvarlegar pestir en aldrei af þessari stærðargráðu í því alþjóðlega samfélagi sem hefur orðið til á undanförnum tiltölulega fáu árum. Enginn virðist hafa hugmynd um það hvernig á að bregðast við með tilliti til heilbrigðis-, samfélags- og efnahagssjónarmiða, a.m.k. ef marka má hversu mismunandi viðbrögðin hafa verið úti um allan heim. Sóttvarnaviðbrögð hafa verið mjög mismunandi með skelfilegum afleiðingum í sumum löndum og mjög góðum árangri í öðrum, t.d. hér á Íslandi.

Efnahagsleg viðbrögð hafa einnig verið mjög mismunandi milli landa en þó hafa ýmsar efnahagslegar aðgerðir líkt og pestin smitast á milli landa að einhverju leyti. Þannig eru algeng rök fyrir aðgerðum stjórnvalda hér á landi að þær séu einfaldlega svipaðar og annars staðar. Það eru pínulítið tóm rök því þá fylgir ekki af hverju það er verið að beita þeim. Annaðhvort það eða að það séu sömu aðgerðir og voru notaðar í síðasta hruni og hafi gengið vel þá. Það er góðra gjalda vert að gramsa í reynslubankanum og draga upp þau verkfæri sem virka. Eins og okkur er hins vegar ítrekað sagt af umsagnaraðilum eru engar tvær kreppur eins. Það eru mismunandi ástæður fyrir hverri kreppu og mismunandi afleiðingar. Það þýðir að þótt rörtöng hafi verið gott verkfæri síðast þá þarf kannski að stilla stærðina á henni til þess að hún gagnist til að leysa vandamál dagsins í dag.

Stærsta vandamál þeirrar efnahagsholu sem blasir við okkur í dag er sú hola sem ferðamannaiðnaðurinn skilur eftir sig. Sú atvinnugrein var orðin gríðarlega umfangsmikil í íslensku efnahagslífi fyrir faraldurinn og verður fyrir mestum áhrifum. Þetta er iðnaður sem var með þó nokkuð miklar skattaívilnanir til að hjálpa til við uppbyggingu og hann blés í rauninni út eins og raunin varð. Það mun mjög líklega taka þó nokkuð langan tíma fyrir ferðaþjónustuna að ná sömu hæðum og áður en við getum ekki beðið þangað til það gerist heldur verðum við að finna eitthvað annað að gera á meðan. Þar komum við að áherslu Pírata á nýsköpun. Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar er kafli um efnahagslega viðspyrnu, þar er fjallað um nýlegar þingsályktunartillögur um mótun klasastefnu og aðgengi að stafrænum smiðjum. Báðar tillögurnar fjalla um eflingu nýsköpunar um allt land og aðgengi að nýsköpun. Báðar tillögurnar bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til að takast á við það efnahagsástand sem við komum til með að glíma við á næstu árum. Það þarf nýsköpunaraðstöðu úti um allt land þar sem bæði opinberi og almenni geirinn koma saman og geta nýtt þau tækifæri sem eru til staðar, þar má horfa til Blábankans á Þingeyri eða vísindagarðanna í Vatnsmýri og alls þar á milli. Til þess að nýta nýsköpunarfjármagn og stemma stigu við auknu atvinnuleysi væri eðlilegt að stíga ákveðin skref í áttina að þessum tveimur þingsályktunartillögum. Það þarf að byggja upp aðstöðu úti um allt land þar sem fólk getur komið saman, fyrirtæki og einstaklingar, og notað þá aðstöðu sem er aðgengileg í nærsamfélaginu til þess að gera meira og betur. Það er lykilatriði í endurreisn samfélagsins eftir Covid og uppbyggingu til framtíðar. Það er ekkert fjármagn í þessum fjárauka en þetta er ákall um að það komi í næsta pakka sem samkvæmt öllum skilaboðum er von á fljótlega, sjáum til hvernig það verður.

Ég skrifa undir nefndarálit meiri hluta aðallega af tveimur ástæðum. Til að byrja með, eins og ég sagði áður, af því að ég tel að allir séu að reyna að gera sitt besta. Ég tel að það væri hægt að gera betur en það má alveg taka undir skref í rétta átt þótt þau séu lítil. Sumum finnst þau kannski vera aðeins stærri en ég segi en stærðargráður eru mismunandi í huga fólks, allt í lagi. Af sömu ástæðu er ég með á breytingartillögu minni hluta, þar sem eru lögð fram fleiri og stærri skref. Til viðbótar við það er þingflokkur Pírata með enn fleiri breytingartillögur. Að sjálfsögðu eru þær tillögur sem Píratar stóðu að ásamt öðrum vegna fyrsta fjáraukans enn í boði en þar sem meiri hlutinn hefur þegar hafnað þeim tillögum er óþarfi að eyða tíma þingsins í endurtekningar á þeim.

Kannski finnst einhverjum undarlegt að ég taki undir álit meiri hlutans. Ef svo er bendi ég bara útskýringar mínar í upphafi ræðunnar á því hvernig pólitíkin getur virkað. Það er auðvelt að vera bara fúll á móti og þykjast vita betur en málið er að í rauninni veit enginn mikið betur. Við fáum a.m.k. ekki mikið af upplýsingum til þess að vinna með. Það þýðir að þó að nefndarmenn stjórnarflokkanna treysti kannski ráðherrum til að koma með gáfulegar tillögur til þingsins um viðbrögð við þessu ástandi þá treysti ég ráðherrum ríkisstjórnarinnar bara alls ekki til að gera það. Ég tel að viðbrögð ríkisstjórnarinnar séu minnsti samnefnarinn sem hún getur komið sér saman um og þar við situr. Það þýðir þó ekki endilega að tillögurnar séu slæmar, bara að þær séu takmarkaðar. Þess vegna get ég tekið undir þær og á sama tíma lagt til viðbætur og það er fyrirvari minn gagnvart þessu áliti. Málið sjálft er ekkert endilega eitthvað sem ég get tekið undir að sé nóg en álitið á því hvað þarf til er eitthvað sem ég get tekið undir. Það byggist á ákveðinni von um að þetta dugi og við náum að bregðast við í tæka tíð í framtíðinni. Þar er ég eins og meiri hlutinn að giska dálítið. Það er nefnilega aldrei útskýrt hversu miklu þessar aðgerðir eiga að skila, það er bara vonað að þær dugi. Ég vona það líka en hef eins og meiri hlutinn engar forsendur til að segja hvort þær muni gera það eða ekki nema bara með ágiskun. Þess vegna stend ég einnig að frekari breytingartillögum því eins og áður hefur verið sagt: Nú er tíminn til að gera meira en minna.

Ég ætlaði að fara aðeins yfir breytingartillögur þingflokks Pírata. Þær eru í tvennu lagi, annars vegar er það breytingartillaga til að dekka kostnað heilbrigðiskerfisins sem hefur hlotist vegna þess faraldurs sem heilbrigðiskerfið þurfti að glíma við. Við fengum minnisblað um sundurliðun á þeim kostnaði upp á rúma 5,3 milljarða sem kemur augljóslega til kasta Alþingis að lokum og ég skil ekki af hverju því gati er ekki lokað strax. Það er önnur tillagan.

Hin tillagan snýr að lífeyri almannatrygginga. Í 69. gr. almannatryggingalaga kemur fram að lífeyrir almannatrygginga eigi að hækka um hvort sem er hærra, launaþróun eða vísitala neysluverðs. Vandamálið er að alltaf er spáð fyrir um það í upphafi árs hver vísitala neysluverðs verður og hver launaþróun verður og nokkurn veginn alltaf hefur þetta verið vanspáð. Það gerir að verkum að grunnlífeyrir hefur nær alltaf verið undir bæði launaþróun og vísitölu neysluverðs. Nú gerðist það 1. maí að þingmenn og ráðherrar fengu launahækkun upp á 6,3% út frá útreikningum um launaþróun fyrir árið 2018, 6,3%. Á sama ári, 2018, fengu þeir sem fá lífeyri samkvæmt almannatryggingalögum 4,7% hækkun af því að hún var eftir væntri launaþróun en ekki raunverulegri launaþróun. Þetta gerist ár eftir ár. Uppsöfnuð hækkun vegna þessa, fyrir málefnasvið öryrkja alla vega, er síðan 2007, sem er þegar voru síðustu stóru kerfisbreytingar, er rúmlega 30%. Þarna vantar 30% hækkun sem er um 22 milljarðar. Á nákvæmlega sömu forsendum og laun ráðamanna, þingmanna og ráðherra hafa hækkað ætti lífeyrir almannatrygginga að sjálfsögðu að fylgja með á sama hátt. Ég minni á það sem ég nefndi í upphafi: Er verið að bæta kjör fátækra? Þetta sagði hæstv. félags- og barnamálaráðherra og vísaði í fræg ummæli Mahatma Gandhis og Kims Larsens um það hversu fátækt væri mikilvægt mál stjórnvalda að glíma við. Þegar maður sér þennan augljósa mun á því hvernig útreikningar fyrir þá sem hafa það gott hagnast þeim á meðan útreikningar fyrir þá sem hafa það verst hagnast þeim ekki, þegar þetta eru í raun sömu útreikningarnir þá fallast mönnum pínulítið hendur við þau verkefni sem þingið glímir við.

Önnur atriði sem Píratar hafa lagt áherslu á umfram nýsköpun, sem verður að leggja mjög mikið kapp á til að fjölga störfum. Það var talað um að rúmlega 50.000 manns væru á atvinnuleysisbótum að öllu leyti eða að hluta og störfin sem þar voru undir, að miklu leyti í ferðaþjónustunni, eru ekkert að koma aftur í bráð. Það er líka annað sem við ættum að stefna almennt að, að hafa ekki svona fáar starfsstéttir í rauninni sem mynda meiri hlutann af efnahagslífi Íslands; ferðamannaiðnaðurinn, áliðnaðurinn og sjávarútvegurinn, að ekki séu öll egg í sömu körfunni. Þess vegna átti nýsköpun á sínum tíma að verða fjórða stoðin. Við verðum að fara að hlúa vel að henni og sem betur fer hefur meiri hlutinn og þingið hlustað á ábendingar fólks einmitt í þessu ástandi um að leggja meira til nýsköpunar en ríkisstjórnin hefur gert. Ég held að ríkisstjórnin fagni því bara, a.m.k. hef ég heyrt hæstv. nýsköpunarráðherra fagna auknu fjárframlagi og fjárheimildum í þann málaflokk því tækifærin eru tvímælalaust til staðar. Við sáum það í þeim fjárheimildum sem voru lagðar í Rannsóknasjóð, til Rannís. Maður heyrir um fjölmargar umsóknir í hann sem var áður hafnað þó að þær væru með einna besta einkunn því að var ekki nægilega mikið fjármagn til að fjármagna allar þær umsóknir sem eru núna hver á fætur annarri að fá styrk. Afraksturinn af þessu verður á næstu árum mjög mikill. Við þurfum að passa að halda í við þetta, að hugsa ekki um þetta sem einskiptislausn á þessu ástandi. Það verður að vera stígandi í þessu og að við tryggjum grundvöllinn að þessari fjórðu stoð, fjölbreyttu stoðinni, sem ætti að mínu mati að vera langstærsta stoðin þegar allt kemur til alls. Þá verðum við sveigjanlegri og sjálfbærari gagnvart efnahagshræringum sem hafa oft slegið þessar stóru atvinnugreinar okkar og komið okkur í vandræði. Með fjölbreyttari störfum og fjölbreyttari efnahag komumst við betur í gegnum þær kreppur sem við lendum í.

Að lokum höfum við Píratar lagt fram frumvarp um að stöðva nauðungarsölur. Kannski er ekki þörf á því akkúrat núna en það verður þörf á því. Vonandi ekki en það er ekkert ólíklegt að það verði þörf á því, alls ekki, ef fer fram sem horfir. Það er gott að vita af því strax að öryggisnetið sé til staðar af því að við vitum það alveg að síðast var brugðist of seint við. Leiðrétting sem var reynt að gera eftir á var gjörsamlega út úr kortinu. Fólk sem var búið að missa húsnæði sitt fékk ekki neitt, fékk ekkert bætt en þeir sem náðu að standa af sér storminn fengu síðan leiðréttingu, þ.e. þeir sem þurftu í rauninni síst á því að halda. Vissulega var hún réttlætanleg út frá þeim forsendum að það varð ákveðinn brestur og allt í lagi að bæta hann en það fengu ekki allir þá leiðréttingu og það er það sem var ósanngjarnt. Kannski var ósanngjarnast einmitt að af þeim sem gætu fengið eða áttu að fá leiðréttingu þá voru það þeir sem síst þurftu á henni að halda sem fengu hana. Ég geri ekki lítið úr því að þeir sem fengu leiðréttinguna áttu tvímælalaust rétt á henni en þeim mun meiri rétt áttu þeir sem fengu ekki leiðréttingu en höfðu misst allt, líka námsmenn og leigjendur sem fengu ekkert. Þess vegna þurfum við að passa þetta strax, koma með lög um að við stöðvum nauðungarsölur, að það sé pása á þeim vettvangi. Þegar þeirri pásu verður aflétt verði annað net líka þar sem hið opinbera grípur jafnvel nauðungarsölur á lögheimili fólks og gerist lánveitandi þess í staðinn þangað til viðkomandi getur fundið sér endurfjármögnun. Þetta er meira að segja ókeypis aðgerð að mestu leyti fyrir ríkissjóð af því að ríkissjóður tekur yfir lánið eða nauðungarsöluna sem gæti jafnvel verið höfuðstólslækkun því að lánið getur verið selt á undirverði, eins og gerðist síðast, en fær síðan aftur fjármagnið þegar búið er að endurfjármagna lánið. Þetta er mjög ódýr aðgerð.

Þetta eru nokkur atriði, nýsköpun, heilbrigðiskerfið, öryggi heimilanna. Þetta eru atriði sem við þurfum að gefa merki um strax að Alþingi hafi klárað áður en við erum komin í einhver vandræði, jafnvel strax í sumar þar sem þarf kannski að kalla þingið saman í miðju sumarfríi, hvenær sem það verður, ekki eins og ég telji að það þurfi endilega sumarfrí í þessu ástandi.