150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki kominn lengra í að ígrunda þetta en þetta er áhugaverð nálgun á viðfangsefni sem getur verið flókið, ég tala nú ekki um þegar pólitíkin fer að nálgast það eitthvað hér á vettvangi löggjafans. Látum vera með það. Þetta er áhugaverð nálgun. Þá veltir maður fyrir sér tímamörkunum þegar við lendum í svona hremmingum, við skulum vona að þetta verði tímabundið og leiði ekki til fjöldaþrots sem myndi kalla á mjög dramatískar aðgerðir. Hvar myndi hv. þingmaður draga mörkin með slíkt tímabil? Í þessum heimi okkar kemur auðvitað fyrir að fólk lendir í vandræðum, óhjákvæmilega, og er búið að skuldbinda sig í samningum sem fara illa. Við þurfum að hafa einhverja löggjöf um það. Það þyrftu að vera einhver mörk á því þegar ríkið stígur svona inn í. Er það úrræði bara endalaust eða hver yrðu mörkin á þeirri greiningu, hv. þingmaður?