150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[19:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða fjáraukann og ég verð að segja alveg eins og er að eftir fréttir Stöðvar 2 í kvöld er ég gjörsamlega gáttaður á því hvernig fyrirtæki geta hagað sér. Það er alveg með ólíkindum að á sama á tíma og verið er að róa lífróður til að bjarga fyrirtækjum, heimilum — og það fer minna til heimilanna — er fyrirtæki sem virðist ætla að fara að skila 7 milljarða hagnaði að fara með lúkurnar ofan í ríkissjóð og biðja um björgun upp á 35 til 40 milljónir. 1% af þeim dygði fyrir þessum bótum í tvo mánuði.

Ég spyr bara hvort ekki sé kominn tími til að gera eins og var gert á sínum tíma. Þá var það Tryggingastofnun ríkisins og sú háværa umræða að öryrkjar væru svo rosalega spilltir að þeir væru að svindla sér inn á bætur Tryggingastofnunar og þarna væru að hverfa út milljarðar, sem síðan reyndist bara tómt bull. Við getum gert nákvæmlega það sama og Tryggingastofnun gerði á þeim tíma, búið til svikahnapp og komum honum fyrir hjá fjármálaráðuneytinu. Við getum líka gert eins og ráðherrann benti á þannig að allir hringi í 1717 og láti vita þegar fyrirtæki haga sér svona algjörlega óábyrgt. Það væri hið besta mál og ég er viss um að þeir hjá 1717 gætu safnað því saman og komið því til fjármálaráðuneytisins. Við verðum og eigum að stoppa þetta.

Að því sögðu ætla ég að snúa mér að því sem formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, annar varaformaður fjárlaganefndar, bókar í þessum fjárauka, með leyfi forseta, orðrétt:

„Enda þótt breytingartillögur meiri hlutans séu um margt jákvæðar þá ganga þær ekki nógu langt í að tryggja stuðning við viðkvæmustu þjóðfélagshópana, almannatryggingaþega, atvinnulausa og fátækar fjölskyldur. Fólk sem bjó við fátækt fyrir Covid-19 heimsfaraldurinn er ekki nefnt á nafn í þessum svokölluðu björgunarpökkum ríkisstjórnarinnar. Þessi þjóðfélagshópur hefur rétt eins og aðrir orðið fyrir tekjumissi og útgjaldaaukningu vegna faraldursins. Stjórnarflokkarnir neita að framlengja uppbót á örorkulífeyri eða að veita sams konar úrræði fyrir ellilífeyrisþega. Eigi að síður finna þeir til fjármuni handa einkareknum fjölmiðlum í eigu auðmanna með bein tengsl við stjórnmálaflokka.

Þá er í nefndarálitinu gert ráð fyrir fjárframlögum til SÁÁ gegn því að samið verði um ráðstöfun þeirra við Sjúkratryggingar Íslands. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða sem hugsuð er til að mæta hluta af því tekjutapi sem samtökin hafa orðið fyrir vegna Covid-19 faraldursins. Því er afar mikilvægt að greiðslan berist strax og milliliðalaust svo ekki verði um skerðingu á þjónustunni að ræða.

Nauðsynlegt er að styrkja enn frekar við hjálparsamtök umfram þær 25 millj. kr. sem gert er ráð fyrir í nefndarálitinu. Miðað við þau hundruð milljarða króna sem setja á í björgunaraðgerðir er ótrúlegt að ekki skuli vera gert ráð fyrir því að gefa svöngum að borða. Nefna má Fjölskylduhjálp Íslands í því sambandi sem vinnur nú þrekvirki á hverjum virkum degi með matargjöfum. Við verðum að tryggja að allir þeir sem gefa fólki mat geti starfað af fullum krafti á meðan við göngum í gegnum þennan dimma dal.

Þá er dapurlegt að sjá að ríkisstjórnin ætlar ekki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að koma í veg fyrir stórfelldar hækkanir á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána. Á þessum óvissutímum er nauðsynlegt að setja 2,5% þak á vísitölu neysluverðs, ellegar er hætta á að fjöldi landsmanna missi heimili sitt líkt og gerðist hér í kjölfar efnahagshrunsins 2008.“

Við verðum að átta okkur á því, virðulegur forseti, að verðtryggingin er böl, sérstaklega verðtrygging á íbúðalánum. Það er alveg með ólíkindum að ríkisstjórnin ætli ekki að læra af fyrri mistökum ríkisstjórnar við hrunið og taka verðtrygginguna af íbúðalánum. Þeir geta fest hana við 2,5%, t.d. í sex mánuði til að byrja með. Tröllatrú þeirra á því að ekki yrði verðbólga beið hnekki fyrir stuttu síðan þegar banki spáði 0,1% verðbólgu en hún endaði í 0,5%, fimm sinnum meira. Nú kemur Seðlabankinn og segir að ekki verði nema 1,4% verðbólga í versta falli. Ef það sama skeður þar og hjá fyrri bankanum og verðbólgan fimmfaldast verður hún 7%. Ég segi bara: Guð blessi heimilin.

Í því samhengi má nefna að við furðum okkur oft á því hvers vegna í ósköpunum ekki er gert meira fyrir öryrkja. Hvar, í öllu því fári sem hefur gengið yfir, er orði eytt á eldri borgara? Hvar er ein króna til eldri borgara? Það er ekki stakt orð neins staðar um að hjálpa eldri borgurum sem verst standa í þessum kórónuveirufaraldri. Það er til háborinnar skammar vegna þess að við vitum um loforð formanns Sjálfstæðisflokksins til eldri borgara á sínum tíma þar sem hann að lofaði að leiðrétta kjaragliðnun allt aftur til 2009. En það var bara fyrir kosningar, ekki þegar hann var kominn til valda. Við erum með furðulegt kerfi sem mismunar fólki, mismunar þeim sem verst standa. Við erum búin að búa til stórfurðulegar tölur; 250.000, 290.000, 335.000, 400.000, 700.000 og einhvern veginn erum við búin að setja niður að þeir sem eru lægstir eigi að reyna að tóra á 250.000. Það eru 70% öryrkja. Næst koma 290.000 kr., nú þegar tala atvinnulausra nálgast 30.000–40.000, jafnvel 50.000. Lágmarkslaun eru 335.000 og það þarf að berjast með kjafti og klóm fyrir að halda þeim lífskjarasamningi sem þar er því að stefnt er að því að ráðast á hann líka.

Gerð var beiðni í þessum fjáraukalögum um að setja inn eitthvað meira fyrir öryrkja og eldri borgara. Það hefði verið hægt og hefði verið gott, eins og reynt var, að koma að 100.000 kr. eingreiðslu, skatta- og skerðingarlausri, til eldri borgara og öryrkja, þá sem verst standa, í sumar. Það er ekki inni í myndinni.

Í skýrslu KPMG kemur fram að árið 2019 voru tekjur af erlendum ferðamönnum 470 milljarðar. Þetta er næstum allt horfið. Í skýrslunni er spáð lækkun gjaldeyristekna sem gæti numið allt að 330 milljörðum kr. Þetta eru gífurlegar fjárhæðir og segir okkur að með sama áframhaldi saxast á gjaldeyrisforða landsins. Tekjusamdráttur gæti numið 25% af heildartekjum þjóðarbúsins. Tjón á Íslandi yrði meira en í öðrum hagkerfum sem við berum okkur saman við vegna þess að ferðaþjónustan myndar stærri hluta hagkerfisins hér. Þetta erum við alltaf að gera. Við erum búin að búa til skrímsli sem er ferðaþjónustan og hún hrundi. Við erum að búa til skrímsli sem er fiskeldi. Það gæti þurft bara eina sýkingu þar til þess að það myndi hrynja. Við verðum að fara að huga að því að jafna út og finna og skapa ný störf, nýja tekjustofna.

Stjórnarliðar voru að hæla sér af því hér að vera með félagsmálapakka í þessu upp á 8,8 milljarða en þeir gleyma því hver bankaskatturinn var. Hann var 11 milljarðar. Ef við horfum raunhæft á þetta eru þeir að tala um 200–300 milljarða björgunarpakka. Hvað erum við þá að tala um? Bara 10% af því eru 20–30 milljarðar. Væri nokkuð óeðlilegt að 10% af því færu til þeirra sem verst standa, að við myndum hreinlega passa upp á þá sem eru verst staddir í þjóðfélaginu? Jú, þeir ætla að setja 22,5 milljónir, 25 milljónir með könnun á þörfinni, í mataraðstoð, til hjálparstofnana. Fyrr í dag sagði ég frá því að hjá Hjálparstofnun kirkjunnar hefði aukningin verið 60% í mars og apríl og mikil aukning líka á þörfinni fyrir lyf. Þetta segir okkur alla söguna, hversu rosalega mikil þörfin er. En það þýðir ekkert að ræða það, þeir hlusta ekki sem ráða í ríkisstjórninni.

Fjárlaganefnd kallaði eftir tillögum frá ÖBÍ sem svaraði með tillögu um hækkun grunnlífeyris, mjög sanngjörn tillaga. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr frétt frá stjórn Öryrkjabandalagsins:

„Á fundi fjárlaganefndar kom fram ósk um tillögur frá ÖBÍ um viðbrögð við þeirri fordæmalausu stöðu sem uppi er í íslensku efnahagslífi í kjölfar Covid-19. Hér kemur tillaga ÖBÍ um hækkun framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Um er að ræða lágmarkskröfu.

Þær fordæmalausu aðstæður sem við lifum nú kalla á nýja hugsun og nálgun þar sem velferð fólks verður að vera í fyrirrúmi. Með hækkun örorkulífeyris til samræmis við lágmarkslaun vinnum við okkur hraðar út úr þeim þrengingum sem nú blasa við.

Sinnuleysi síðasta áratugar um kjör öryrkja má ekki halda áfram í skjóli núverandi kreppu. Nú munar um 80 þús. kr. á örorkulífeyri og lágmarkslaunum og útlit er fyrir að kaupmáttur lífeyris minnki enn frekar, eftir að hafa nánast staðið í stað á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar.

Örorkulífeyrinn hefur dregist mikið aftur úr kjörum annarra hópa, svo sem launaþróun á vinnumarkaði, lágmarkstekjutryggingu í dagvinnu og atvinnuleysisbótum. Nauðsynlegt er að fjárhæðir almannatrygginga fylgi launahækkunum kjarasamninga til að draga úr ójöfnuði og til að tryggja megi afkomu fólks.“

Grunnlífeyrir hækki um 41.000 kr. á árinu 2020. Framfærsluviðmiðið hækki um sömu krónutölu á sama tíma. Tillagan er í samræmi við tillögu BSRB um hækkun örorku- og endurhæfingarlífeyris í umsögn BSRB um þingmál 726 og 724.“

Þetta er gífurlega hógvær krafa, sérstaklega í því ljósi að við erum nýbúin að hækka laun okkar þingmanna, ráðherra og annarra æðstu opinberu starfsmanna um allt að 70.000 og upp í á annað hundrað þúsund. Það eru ekki til peningar til að hækka um 41.000 en það eru til peningar til að hækka um 70.000 og yfir 100.000 kr. á mánuði fyrir okkur sem þurfum síst á því að halda. Svona er þeirra réttlæti, eða eigum við ekki að segja óréttlæti.

Því miður er sinnuleysi um kjör öryrkja í núverandi kreppu algjört og þá einnig sinnuleysi gagnvart eldri borgurum. Við erum í þeirri furðulegu stöðu að við horfum einhvern veginn fram hjá mannréttindum. Við fylgjum ekki mannréttindasáttmálanum og tryggjum ekki að allir séu jafnir og hafi húsaskjól, fæði, klæði, lyf og læknisþjónustu. Því miður er það staðreynd að það sem hefur gleymst í stöðunni eins og hún er núna er að hætta er á því að fleiri lendi á örorkubótum vegna þess að biðlistar hafa lengst í alls konar aðgerðir. Þar þarf að spýta í en ég á eftir að sjá hversu mikið það verður vegna þess að nú þegar er byrjaður barlómur, sem er kannski réttur að mörgu leyti, um gífurlegan halla á ríkissjóði. En hvað þýðir það yfirleitt? Ég segi fyrir mitt leyti að ef það er eins og það hefur áður verið þá mun þrengja enn meira að þeim sem síst skyldi, öryrkjum, eldri borgurum, láglaunafólki, atvinnulausum. Það hefur sýnt sig að það hefur aldrei verið hægt að hækka þá í kreppu og síðan, þegar góðærið skellur á, gleymast þeir. Við sjáum það best á því hvernig við afgreiddum laun þingmanna. Þar fórum við eftir launavísitölu. Það stendur, eins og við vitum, skýrt í 69. gr. almannatryggingalaga að bætur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta er aldrei gert. Þess vegna fengu öryrkjar um síðustu áramót mun minna en við, þjóðkjörnir fulltrúar hér. Ástandið hjá öryrkjum og eldri borgurum og þeim sem verst standa er síst betra úti á landi. Við vitum stöðuna á Reykjanesi. Þar var fyrir faraldurinn gífurlega erfið staða, mikið atvinnuleysi og það hefur stóraukist.

Í því samhengi megum við ekki gleyma að við eigum að standa vörð um börnin, langveik börn, fötluð börn. Okkur ber skylda til þess að verja þau en til þess að verja þau verðum við líka að verja foreldra þeirra. Nú er staðan sú að jafnvel báðir foreldrar eru atvinnulausir og gjörbreyttar forsendur. Við verðum og eigum að greina og finna út hvar þörfin er mest og hjálpa. Við verðum að taka nákvæmlega sömu stefnu á eldri borgara, öryrkja, fötluð börn, barnafjölskyldur og við erum að taka á fyrirtæki. Það er alltaf sagt að við verðum að bjarga fyrirtækjunum til að verja störfin en það verður líka að bjarga heimilunum til að verja störfin. Við vitum hvernig þetta fór í hruninu, við vitum að það voru á annan tug þúsunda heimila sem voru hreinlega tekin af fólki. Ég óttast mest að það verði aftur þannig vegna þess að bara nýjasta verðbólguskotið var upp á 20–30 milljarða. Það þarf ekki mörg svoleiðis til að sama staðan komi upp og þá er verið að senda reikninginn á heimilin. Það er verið að senda 200–300 milljarða halla ríkissjóðs á heimilin, og til hvers? Til að bjarga bönkunum eða ríkissjóði.