150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[19:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætissvar. Það sem ég hef áhyggjur af hvað þetta varðar er að verið er að setja aukna fjármuni í tvo sjóði — 500 milljónir, sem eru nú töluverður peningur — en það er í raun einskiptisaðgerð. Við vitum ekkert hvað kemur ári síðar og þá þarf væntanlega að fara að huga að því að skera niður til að mæta þeim gríðarlega halla sem við sjáum fram á að verði á ríkissjóði, og þá er hættan sú að þarna séu tvær mikilvægar atvinnugreinar að berjast um litla fjármuni, þ.e. sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Það er áhyggjuefni í mínum huga hvort ekki hefði verið affarasælast á þessum tímapunkti, í þessum aðstæðum, að setja fjármuni í þá sjóði strax og nýta þá til skapandi verkefna og atvinnuuppbyggingar frekar en að fara þessa leið. Þetta eru sjónarmið sem ég hef haft í umræðunni og gott að fá fram hjá hv. þingmanni, sem þekkir þennan málaflokk mjög vel, sjónarmið hans. Ég held að það þurfi a.m.k. að tryggja það mjög vel að þau verkefni sem Framleiðnisjóður hefur haft með höndum verði áfram og lúti að þeim byggðamálum sem hann hefur staðið sig frábærlega í og þeim mikilvægu verkefnum sem hann hefur sinnt á því sviði. Maður óttast að þetta komi til með að skolast eitthvað til þegar athyglin þarf að vera á öðrum málaflokki á sama tíma, þ.e. á sjávarútveginum og því sem að honum snýr. Þetta eru hlutir sem ég hef velt fyrir mér og þótti eðlilegt að heyra viðhorf hv. þingmanns í þeim efnum þar sem hann hefur mikla þekkingu á málinu.