150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[20:01]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segir að verið sé að nálgast þetta með ábyrgum hætti. Mig langar að spyrja aðeins um hliðarmál sem við erum með sem breytingartillögu, þetta er smáspurning um réttlæti varðandi t.d. hækkun launa þingmanna og ráðherra, sem var upp á 6,3% samkvæmt launaþróun ársins 2018, en á sama ári hækkaði lífeyrir almannatrygginga um 4,7% þrátt fyrir að launaþróun ársins á almenna markaðnum hefði verið 6,45% og hefði þá átt að hækka, miðað við 69. gr. í lögum um almannatryggingar, um 6,45% og er kjaragliðnun upp á 1,75%. En alla vega, þingmenn fá sem sagt greitt eftir á samkvæmt útreikningum um launaþróun þegar við vitum hver raunveruleg launaþróun hefur orðið en samkvæmt lögum um almannatryggingar — ekki samkvæmt lögunum heldur samkvæmt túlkun laga um almannatryggingar er spáð fyrir um verðlagsþróun eða launaþróun. Hver sú raunverulega launaþróun eða verðlagsþróun verður hefur ekki áhrif á hækkun lífeyris almannatrygginga. Og einungis sex sinnum af 23 skiptum frá 1997 hefur hækkun lífeyris samkvæmt almannatryggingum verið hærri en annaðhvort launaþróun eða verðlagsþróun. Kjaragliðnunin frá því er nú orðin rúmlega 51%. Vanmat er á því í raun hversu mikil launaþróun eða verðlagsþróun verður í upphafi árs miðað við hvernig hún verður í lok árs. Launamunurinn er þá þessi.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri eðlilegt að við tækjum einmitt upp sömu reiknireglu fyrir þennan hóp samkvæmt þessum lögum og við gerum fyrir þingmenn og ráðherra, sem sagt að gera það upp í lok árs þegar við vitum hver launaþróun og verðlagsþróun hefur orðið.