150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur kynnt ágætlega breytingartillögur síns flokks og það er bara fínt og kannski eðlilegt að hann noti tækifærið til þess. Líkt og ég er áður búin að segja er verið að leggja til mikla fjármuni í ýmsa hluti til að styrkja samfélagið, til að auka nýsköpun og til að styrkja hin ýmsu félagslegu kerfi. Þetta skiptir allt saman máli. Það sem hér er verið að gera er að auka enn við það. Ég tel að það sé mjög ábyrgt að fara varfærna leið vegna þess að það skiptir máli hvað við gerum núna og hvernig við gerum það. Þess vegna er mjög mikilvægt að standa með báða fætur á jörðinni og vera ekki með yfirboð þegar kemur að þeim aðgerðum sem stjórnvöld fara í núna á þessum gríðarlega viðkvæmu tímum.