150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[21:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var áhugaverð umræða um markmiðin í andsvari áðan, markmið með lækkun tryggingagjalds; það væri óljóst hvort þau myndu skila árangri. Vandamálið er að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru undir sömu ágiskunum og þessi tillaga um lækkun tryggingagjaldsins. Það er meira að segja ágætiságiskun að lækkun tryggingagjaldsins hefði jákvæð áhrif hvað þetta varðar en ýmislegt í tillögum ríkisstjórnarinnar í fjárauka tvö er ekkert endilega svo augljóst að skili þeim árangri sem því er ætlað, eða hvaða árangri þeim aðgerðum var ætlað að skila yfir höfuð. Dæmi um það er í raun hver afdrif fyrsta fjáraukans hafa orðið, með arðgreiðslur o.s.frv., það vantar aðeins fágun þar á.

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann: Ólíkt því sem var í síðasta hruni, þegar skuldasöfnun var vegna bankanna sem fengu þá eignir fyrir og skuldasöfnunin greiddist í raun til baka, erum við ekki í þeim lúxus núna. Við fáum í raun engin veð fyrir þeirri skuldasöfnun sem við förum út í í kjölfarið á þessu. Þannig að endurkoman eftir þessa niðursveiflu verður allt öðruvísi en síðast, þ.e. við fáum ekki eina stóra summu þegar eignirnar eru gerðar upp heldur verðum við stöðugt að vinna að því að greiða niður þá skuldasöfnun ólíkt því sem var síðast. Og hvernig sér hv. þingmaður þetta fyrir sér ofan í áætlanir, t.d. um lækkun skatta sem er eitt af skilyrðum lífskjarasamningsins, frá stjórnvöldum?