150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[22:21]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um fjáraukalög upp á 13 milljarða sem eru u.þ.b. 1% af ríkisútgjöldunum sem að mínu mati dugar engan veginn til að mæta þeirri þörf og því ákalli sem á sér stað í þessu samfélagi sem þarf að kljást við eina dýpstu kreppu í 100 ár.

Hér er ekki verið að hækka atvinnuleysisbætur. Hér er lítið sem ekkert hugað að heimilunum. Hér eru engar verklegar framkvæmdir. Litlu fyrirtækin virðast vera gleymd. Hér er ekki verið að setja ný störf eða varnir gagnvart núverandi störfum í forgang. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar eru fyrst og fremst að niðurgreiða uppsagnir.

Samfylkingin styður að sjálfsögðu allar góðar tillögur en við viljum ganga miklu lengra. Hér höfum við lagt fram tillögur ásamt öðrum í stjórnarandstöðunni um að bæta í álagsgreiðslur, auka styrki til lítilla fyrirtækja, ekki síst í ferðaþjónustunni. Við viljum setja aukna fjármuni til öryrkja og eldri borgara og SÁÁ, Kvikmyndasjóðs, fjölmiðla, landsbyggðarinnar o.s.frv.

Þetta eru allt gerlegar tillögur og ég veit að í hjarta sínu eru margir þingmenn stjórnarflokkanna samþykkir þeim en ég veit sömuleiðis, því miður, að hver einasta tillaga stjórnarandstöðunnar verður felld. (Forseti hringir.) Er það sérstaklega miður í ástandi eins og þessu, herra forseti.