150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

málefni öryrkja og eldri borgara.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að vekja máls á kjörum öryrkja. Ég vísaði í þróun lífskjara ungs fólks áðan og það er einnig svo að þetta er sá hópur sem við þurfum að beina sjónum að. Hins vegar hafa mjög stór skref verið stigin á þessu kjörtímabili. Alveg eins og hv. þingmanni finnst mikilvægt að vekja máls á þessu mjög reglulega finnst mér mikilvægt að rifja það upp mjög reglulega, því að það virðist gleymast, að á þessu kjörtímabili hafa verið stigin mjög stór skref fyrir þennan hóp. Ég get rætt um niðurgreiðslu á heilbrigðiskostnaði sem lengi hafði verið barist fyrir, jafnvel áratugum saman, og þegar við breyttum reglugerð um tannlæknakostnað, svo dæmi sé tekið, sem var eitt af risastórum baráttumálum öryrkja. Ég get nefnt frumvarp sem hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram í fyrra og var samþykkt þar sem dregið var úr krónu á móti krónu skerðingunni hjá örorkulífeyrisþegum. Ég get talað um þriggja þrepa skattkerfi sem gagnast best tekjulægstu hópunum, ekki síst örorkulífeyrisþegum. Ég get talað um aukna innspýtingu í félagslegt húsnæðiskerfi í gegnum almenna íbúðakerfið sem skiptir örorkulífeyrisþega gríðarlega miklu máli.

Næsta haust verður lagt fram frumvarp um endurskoðun á almannatryggingakerfinu. Það er vitað mál að mikið hefur verið unnið í þeim málum of lengi og erfitt hefur reynst að skapa sátt um framtíðarsýn um nákvæmlega hvernig þessu framfærslukerfi eigi að vera háttað. En það er orðið löngu tímabært að ráðast í breytingar til einföldunar á kerfinu og til hagsbóta fyrir örorkulífeyrisþega. Það er von á því frumvarpi í haust og ég vona svo sannarlega að Alþingi muni ljúka því máli því að það er hluti af þessari stóru mynd og það skiptir máli að við náum þeirri heildarendurskoðun á kerfinu (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður hefur oft rætt um.