150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

málefni öryrkja og eldri borgara.

[15:13]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Við getum verið sammála um það en staðreyndin er sú að ef endurskoðun á kerfinu kemur til framkvæmda þarf ákveðinn pakki að fylgja með. Það þarf að sjá til þess núna að kjaragliðnunin sem þessir hópar hafa orðið fyrir verði leiðrétt. Þetta eru einu hóparnir sem ekki hafa fengið kjaragliðnun frá 2009 leiðrétta, 30–40% vantar upp á. Það vantar 30–40% upp á hjá þessum hópum. Þetta hefur þessi hópur ekki fengið. Það þarf líka að taka á keðjuverkandi skerðingum. Það er ömurlegt til þess að vita að bara það að draga úr krónu á móti krónu skerðingunni hefur áhrif hjá ákveðnum hópum á félagsbætur og keðjuverkandi skerðingar í kerfi skila engu. Þess vegna þarf að stokka kerfið upp og einfalda það. En númer eitt, tvö og þrjú er að ganga þannig frá því að þessir hópar sem verst verða úti séu með mannsæmandi laun, ekki 220.000 kr. til að lifa af, (Forseti hringir.) heldur þá upphæð sem þarf til að lifa af.