150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

málefni öryrkja og eldri borgara.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kemur einmitt inn á þetta flókna samspil í núverandi almannatryggingakerfi milli skerðinga og grunnframfærslu. Eins og ég fór yfir í fyrra svari var stórt skref í því að draga úr þessum skerðingum tekið með frumvarpinu sem var samþykkt á Alþingi í fyrra, sem gerði það að verkum að við í raun og veru afnámum eða drógum úr krónu á móti krónu skerðingunni. En áfram eru skerðingar. Það eru líka skerðingar í því kerfi sem eldri borgarar unnu að á sínum tíma með stjórnvöldum og varð til róttækra breytinga á framfærslukerfi þeirra. Það skiptir máli að við séum með þessa heildarmynd og horfum til þess hvort við eigum að horfa á grunnframfærsluna fyrst og fremst og hækka hana eða hvort við horfum til þess að breyta skerðingarkerfinu sjálfu. Þetta hefur verið eitt af því sem hefur verið hvað mest rætt í þessum hópi. Ég held að það sé mikilvægast að horfa til þeirra hópa sem standa verst innan kerfisins. Það gerum við með því að horfa á grunnframfærsluna. Við sjáum það til að mynda núna (Forseti hringir.) með þeim breytingum sem eru inni í þinginu varðandi félagslegan viðbótarstuðning til eldri borgara, þar erum við að koma til móts við (Forseti hringir.) þá hópa sem var ekki mætt með breytingunum 2016 varðandi eldri borgara.