150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

atvinnuleysi meðal námsmanna.

[15:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í Silfrinu í Ríkisútvarpinu í gær var hæstv. félags- og barnamálaráðherra spurður út í atvinnuleysisbætur fyrir námsmenn í sumar sem hann felldi með öðrum stjórnarliðum í síðustu viku í þinginu að gætu orðið að veruleika. Með leyfi forseta lét hæstv. ráðherra eftirfarandi orð falla í þættinum:

„Ég er ekki hvatamaður þess að hvorki námsmenn eða aðrir sem eru á atvinnuleysisskrá fái fjármagn úr ríkissjóði fyrir að gera ekki neitt.“

Herra forseti. Fyrir að gera ekki neitt!

Þessi orð hæstv. ráðherra endurspegla það viðhorf sem birst hefur hjá fleiri fulltrúum ríkisstjórnar, að þeir sem leiti ásjár í hinu opinbera tryggingakerfi þegar sverfir að líkt og núna, þegar 60.000 einstaklingar hafa skráð sig á atvinnuleysisskrá, séu fólk sem fái bætur fyrir að gera ekki neitt, eins og að það fólk hafi val um að fara eða fara ekki á atvinnuleysisskrá, eins og að það fólk hafi val um að hafa eða hafa ekki atvinnu.

Telur hæstv. ráðherra að þeir 60.000 sem núna eru á atvinnuleysisskrá á Íslandi vegna Covid velji það að vera á atvinnuleysisskrá? Telur ráðherra að þeir námsmenn sem nú ljúka vorönn og fá enga vinnu vilji frekar vera á atvinnuleysisbótum en að vera í vinnu? Gerir ráðherra sér grein fyrir því að þau 3.000 störf sem ríkisstjórnin stærir sig af að vera að skapa fyrir námsmenn í sumar munu ekki tryggja 17.000 háskólastúdentum vinnu né 13.000 framhaldsskólanemum nægilega framfærslu í sumar?