150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

atvinnuleysi meðal námsmanna.

[15:28]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, 3.076 störf af hálfu sveitarfélaga eru í pípunum. Námsmenn eru núna að klára önnina og ætluðu að vera byrjaðir að vinna. Fjöldi námsmanna sér fyrir sér og fjölskyldum sínum meðfram námi í störfum og er búinn að missa vinnuna núna og missti vinnuna í mars. Þetta fólk þarf að sjá fyrir fjölskyldum sínum og er ekki á námslánum af því að námslánakerfið er svo lélegt á Íslandi að það eru helmingi færri sem taka námslán í dag en fyrir tíu árum. Það er ekki alltaf hægt að vísa í það hvað gert var fyrir tíu, ellefu árum, árið 2009. Staðan í dag er miklu verri en hún var þá. Þetta er miklu dýpri kreppa en þá. Það eru miklu fleiri sem eru atvinnulausir í dag en þá.

Þá vil ég líka spyrja hæstv. ráðherra: Ef ríkisstjórnin telur sig geta fyrir lok vikunnar útvegað öllum þessum námsmönnum, (Forseti hringir.) þrjátíu og eitthvað þúsund talsins, atvinnu, af hverju útvegar ríkisstjórnin ekki þeim 60.000 einstaklingum atvinnu (Forseti hringir.) sem eru á atvinnuleysisskrá núna og eru ekki námsmenn? Af hverju erum við ekki að skapa störf fyrir þetta fólk líka? Hvar eru þau störf?