150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Nú erum við komin í 3. umr. um fjáraukalögin, seinni pakka ríkisstjórnarflokkanna. Ég vil taka heils hugar undir það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði hér varðandi breytingartillögur minni hlutans, hann rakti það ágætlega hversu góðar tillögur það eru. Það er mjög dapurlegt að þær skyldu ekki hafa verið samþykktar, í raun og veru allar felldar af ríkisstjórnarflokkunum. Á sama tíma og þeir kalla eftir samstöðu og vinnu okkar við þessa tillögugerð er greinilegt að það er ekki sama hvaðan tillögurnar koma. Það er dapurlegt. Ég ætla að vona að ríkisstjórnarflokkarnir breyti aðeins stefnunni þegar kemur að því að fara í frekari aðgerðir sem búið er að boða og menn hlusti þá af alvöru á þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa.

Ég þakka fyrir ágætan fund í fjárlaganefnd í morgun með fjármálaráði. Ég þakka formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir það að fá ráðið á okkar fund. Það var mjög mikilvægt og margt gagnlegt sem kom þar fram og auðvitað á það að vera skilyrði að við fáum þetta ráð til okkar undir þessum kringumstæðum. En lögin eru nú nokkuð stíf hvað varðar þetta ráð og aðkomu þess að aðstæðum sem þessum. Þó vil ég geta þess og koma sérstaklega á framfæri að það er mikilvægt að horfast í augu við það að mjög viðamikið verkefni er fram undan við að sigla opinberum fjármálum inn í farveg laganna að nýju og umhugsunarvert hvort breyta eigi lögunum, þ.e. að hægt sé að leita til ráðsins með álit og tillögur í aðstæðum sem þessum. Mér fannst mjög mikilvægt að fá þetta fram og gera greinarmun á álitum og síðan ráðgjöf, þetta er eitthvað sem við eigum svo sannarlega að skoða. Það kom fram á fundi ráðsins að lögin um opinber fjármál hafa sannað gildi sitt í þessum aðstæðum og það er mjög ánægjulegt að heyra og að það hafi nánast reynt á öll ákvæði þessara laga.

Síðan var aðeins rætt um tímarammann sem við gefum okkur til að vinna úr þessum áföllum, þ.e. að það endurspegli það ekki að fara þurfi nákvæmlega eftir lögunum við þessa stærðargráðu, hvað það varðar að vinna okkur út úr þessu. Það er alveg ljóst að lögin setja mjög ströng skilyrði hvað það varðar og það er ljóst að við þurfum að horfa í það að breyta því. Að öðrum kosti vil ég bara segja að Miðflokkurinn hefur flutt breytingartillögur við þá fjárauka sem lagðir hafa verið fram og í samstarfi við stjórnarandstöðuna. Þær tillögur hafa því miður verið felldar og ég vona svo sannarlega að breyting verði á þessu samstarfi sem ríkisstjórnarflokkarnir kalla eftir í því sem fram undan er, í því mikilvæga og erfiða máli sem við stöndum öll frammi fyrir.