150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú erum við hér í 3. umr. um fjáraukapakkann. Því miður verður að segjast eins og er að þarna inn í vantar sérstaklega eldri borgara og öryrkja sem fá því miður ekki meira en þessa einu greiðslu, um 20.000 kr. 1. júní sem þeir hefðu örugglega þurft að fá jafnvel í júlí, ágúst og september. Vonandi verður það í næsta pakka. Nóg virðist vera til af fjármunum fyrir fyrirtæki og fyrirtæki sem standa vel virðast einhvern veginn geta náð sér í pening líka. En eins og ég segi, það kemur annar pakki og ég vona heitt og innilega að ríkisstjórnin sjái sóma sinn í því að setja þar inn peninga fyrir þá sem mest þurfa á því að halda, þ.e. fyrir eldri borgara, öryrkja og atvinnulausa og barnafjölskyldur. Það þarf líka að sjá til þess að barnabætur skili sér til þeirra sem þurfa á því að halda en byrji ekki að skerðast allt of snemma.