150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[16:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og þekkt er þá lögðum við í Samfylkingunni fram tillögur um hækkun á atvinnuleysisbótum í fimm liðum. Það var um hækkun á grunnatvinnuleysistryggingum, hækkun á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, hlutfallið yrði 100% upp að hámarki tekjutryggingarinnar og að námsmenn ættu rétt á atvinnuleysisbótum í sumar. Þessar tillögur voru allar felldar en sú fimmta fékk nánari skoðun og ég fann fyrir því undir 2. umr. að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar höfðu áhuga á að skoða þá tillögu betur. Eftir hvatningu frá hv. þingmanni Vinstri grænna, Ólafi Þór Gunnarssyni, ákvað ég að kalla tillöguna aftur til 3. umr. Núna er hún komin til afgreiðslu í dag.

Tillagan snýr að framfærsluuppbót sem þeir fá sem eru á grunnatvinnuleysisbótum. Í lögum um atvinnuleysistryggingar er þessi upphæð 4% af grunnatvinnuleysisbótum, sem eru núna 289.510 kr., en tillagan er sú að við hækkum hana upp í 6%. Hvað þýðir þetta í tölum? Það þýðir að í dag fá þeir sem eru á grunnatvinnuleysisbótum 11.580 kr. greiddar með hverju barni undir 18 ára aldri, en með breytingunni fer þess upphæð upp í 17.370 kr.

Nú segir einhver að þetta skipti engu máli vegna þess að það séu svo fáir komnir á grunnatvinnuleysisbætur, strípaðar atvinnuleysisbætur, menn séu á uppsagnarfresti og tekjutengdum atvinnuleysisbótum. En það er ekki rétt. Það er stór hópur fólks sem er nú þegar kominn á grunnatvinnuleysisbætur. Ef við horfum bara á það landsvæði þar sem atvinnuleysi er hæst, sem er Suðurnesin, var atvinnuleysi þar tæplega 10% í febrúar. Það var 14% í mars og stefnir núna í 30%. Athugið að inni í þessum prósentutölum eru ekki taldir með þeir sem eru á uppsagnarfresti þannig að það er augljóst að þessi hækkun með hverju barni þeirra sem eru á atvinnuleysisbótum og þurfa að treysta á þær, sem eru afar lágar — auðvitað verðum við að hækka þær þó að það sé ekki stemmning fyrir því eins og er, en það hlýtur að koma að því. Við í Samfylkingunni erum sannarlega ánægð með að það skuli vera tekið undir þessa breytingu. Við fögnum hverju góðu skrefi. Ég vona að hv. þingmenn, stjórnarþingmenn ýti ekki sjálfkrafa á nei-takkann þegar flutt er tillaga frá þingmanni Samfylkingarinnar. Ég vona að félagi minn í efnahags- og viðskiptanefnd, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, sem flytur tillöguna með mér, sjái til þess að smala sínu fólki saman.