150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[16:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það má segja að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sem talaði hér á undan mér hafi sagt allt sem segja þarf í þessu máli, en ég tel þó rétt og skylt að nefna það, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að það urðu orðaskipti á milli mín og hv. þingmanns við 2. umr. í málinu. Ég ræddi þar m.a. að ég væri að sjá tillöguna, eins og hún kom fram þá, í fyrsta sinn en nefndi að mér þætti hún góð eins og sést á því að ég er meðflutningsmaður á henni nú. Í hönd fór smáhandavinna, má segja, til að reyna að átta sig á nákvæmlega hvað væri undir og hvers eðlis þetta væri. Tillagan í því formi sem hún er núna er lítið eitt breytt frá því sem hún var í upphaflega textanum. Hún er skýrari og eins og hv. þingmaður kom inn á kemur hún þeim best sem hafa verið lengst á atvinnuleysisbótum og hafa þar af leiðandi lægstu framfærsluna nú um stundir. Þess vegna er þessi tillaga mjög góð og ég fagna því sérstaklega að fá tækifæri til að flytja tillöguna með hv. þingmanni og mun gera það sem ég get til að tryggja að hún verði samþykkt hér við atkvæðagreiðslu á eftir.