150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

nauðungarsala.

762. mál
[17:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þetta frumvarp og vil geta þess að ég styð frumvarpið, það láðist bara að geta þess á þessu prentaða eintaki frumvarpsins að ég væri einn af meðflutningsmönnum.

Málið er mikilvægt í mínum huga. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 1. júní 2021 töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu …“

Ég held að við hljótum öll að sammælast um það hér, herra forseti, að engin fjölskylda í þessu landi á að þurfa að missa heimili sitt vegna þessa veirufaraldurs sem við berum enga ábyrgð á. Við þekkjum það hversu alvarleg áhrif þetta hefur haft á efnahagslífið og atvinnu margra og fjölskyldna í landinu. Þetta eru miklir erfiðleikar sem við öll stöndum saman í að komast í gegnum. Við í stjórnarandstöðunni höfum stutt allar góðar tillögur og allar tillögur sem miða að því að lágmarka það tjón sem heimilin og fyrirtækin í landinu verða fyrir vegna veirufaraldursins. Þetta er eitt af þessum góðu málum sem ég vona svo sannarlega að stjórnarmeirihlutinn styðji.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði áðan að það gæti farið svo að stjórnarmeirihlutinn felli málið en komi síðan með sams konar mál eftir tvær, þrjár vikur og geri að sínu eigin og þá er það bara þannig. Við erum búin að horfa upp á það gerast í þessu ferli að stjórnarmeirihlutinn hafnar tillögum stjórnarandstöðunnar og gerir þær síðan að sínum tveim, þrem vikum síðar. Það lýsir kannski best hugsunarhætti hans í þessu öllu saman. En við í stjórnarandstöðunni höfum alla vega lagt okkar vel af mörkum eins og óskað hefur verið eftir um að koma með tillögur. Miðflokkurinn hefur gert það og birt þær í fjölmiðlum og sent forsætisráðherra tölvupósta eins og óskað hefur verið eftir og svo fram eftir götunum. Við höfum svo sannarlega lagt okkur fram um að taka þátt í því að koma með þessar aðgerðir sem gagnast heimilum og fyrirtækjum landsins. Þetta er gott mál og ég ítreka enn og aftur að það má aldrei gerast að fjölskyldur á Íslandi þurfi að missa heimili sín vegna þessa veirufaraldurs og þetta er mikilvægur liður í því.

Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir frumkvæði í þessu máli og hvet alla og þingheim allan til að styðja málið.