150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er að sjálfsögðu mikilvægt mál á ferðinni, að fara í átak í fráveitumálum landsmanna. Sveitarfélög hafa barist fyrir því síðastliðinn áratug að gerð yrði breyting á lögum um virðisaukaskatt í þá veru að sveitarfélögin fái 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Nú er það svo að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einnig lagt fram á Alþingi, í tvígang á yfirstandandi kjörtímabili, þingmannafrumvarp til stuðnings þessum kröfum sveitarfélaganna þess efnis að sveitarfélögin fái undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts vegna fráveituframkvæmda.

Ljóst er að í þessu frumvarpi er ekki verið að koma til móts við þá baráttu sveitarfélaganna. Það er í raun og veru verið að fara þvert á vilja þeirra þegar kemur að þeim hugmyndum um að nýta afslátt af virðisaukaskatti í þessar framkvæmdir. Mér finnst þetta bera svolítið vott um það, sem við höfum séð líka í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, að það vantar þetta samráð við sveitarfélögin. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Nú veit ég að það var nefnd sem lagði þetta til, en hvers vegna var ekki hlustað meira á sveitarfélögin í þessu? Er ekki viðbúið og best í þessu að þau fái að stjórna þessu svolítið sjálf og þá með því að fá þessa endurgreiðslu til baka? Ef hæstv. ráðherra gæti farið aðeins yfir það hvers vegna var ekki horft til þess sem sveitarfélögin hafa mjög svo talað fyrir.