150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Ég er náttúrlega alls ekki sammála því að ekki sé verið að koma á móts við baráttu sveitarfélaganna því að það er einmitt verið að koma á móts við þá baráttu sveitarfélaganna að fá aukinn stuðning við fráveituframkvæmdir, eins og er nú í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Það var haft samráð við sveitarfélögin. Í fyrsta lagi var vinnuhópur sem ég stofnaði 1. október í fyrra, ef ég man rétt, sem skilaði af sér í kringum áramótin eða í janúar þar sem í sat fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig var haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga við samningu þessa frumvarps.

En spurningin er þá kannski: Hvers vegna var þessi leið valin, að fara þá leið að hafa þetta fasta fjárupphæð á ári sem búið er þá að ákveða fyrir árið 2020 en ekki önnur ár? Það var sem sagt niðurstaða hópsins að hentugasta útfærslan fælist í þessu styrkjafyrirkomulagi þar sem það styrkti stefnu um einföldun virðisaukaskattskerfisins, auk þess sem fjárstjórnarvald væri þá óskorað í höndum Alþingis án þess að um væri að ræða sjálfvirkni í útgjaldavexti. En valkostirnir eru, eða voru, að undanþága væri gefin frá virðisaukaskatti sem að mati ríkisskattstjóra væri ekki góð leið. Endurgreiðsla, sem ríkisskattstjóri nefnir að hægt væri að skoða, eða þá auknar fjárveitingar, sem ríkisskattstjóri benti líka á í umfjöllun sinni um frumvarp það sem hv. þingmaður nefndi að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu lagt hér fram. Þetta eru í megindráttum ástæðurnar fyrir þessu.