150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú upphæð sem var til skiptanna núna í ár, þessar 200 milljónir, er eitthvað sem var svo sem ekki bara gripið úr lofti heldur var einmitt rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga um það. Ég held að mjög mikilvægt sé að við getum dreift þessum framkvæmdum á næstu tíu árum með skynsamlegum hætti. Það segir í frumvarpinu á bls. 4–5 að það sé ljóst að mikilvægt sé að reyna eftir fremsta megni að skapa fyrirsjáanleika við úthlutun fjármuna til fráveitna sveitarfélaga og með hliðsjón af áætlunum fráveitna um fyrirhugaðar framkvæmdir væri gert samkomulag um röð og tímasetningu einstakra framkvæmda þannig að þær dreifðust nokkuð jafnt á árunum 2020–2030. Það er þá verkefnið fram undan að kalla eftir því, og þær upplýsingar eru til í grófum dráttum, hvaða framkvæmdir eru tilbúnar og verði tilbúnar á næstu árum, þannig að verkefnið er að ná utan um það.

Aðalmálið er náttúrlega það gleðiefni að við séum að ráðast aftur í það að styðja við fráveitumál sveitarfélaga, að koma fráveitumálum í miklu betra lag en það er í í dag. Hjá mörgum sveitarfélögum vantar upp á að uppfylla lög og reglugerðir og svo er auðvitað sérstaklega ánægjulegt að þarna er gert ráð fyrir að hægt sé að styrkja líka úrbætur við ofanvatnslausnir sem geta komið í veg fyrir að örplastmengun berist í hafið. Ég held því að við séum öll sammála um markmiðið með þessu, að styrkja sveitarfélögin í því að takast á við þessi mikilvægu verkefni.