150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja í upphafi að ég styð að sjálfsögðu heils hugar átak í þessum málaflokki sem er afar brýnt og ég held við séum öll sammála um það. Þetta er kannski bara spurning um aðferðafræði þegar kemur að aðkomu ríkisins gagnvart sveitarfélögunum. Við þekkjum það öll að við Íslendingar eigum langt í land með að innleiða skólphreinsun í samræmi við skuldbindingar sem ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta kemur m.a. fram í vandaðri skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviðafjárfestingar frá árinu 2017 þannig að ljóst er að mikil þörf er á úrbótum í þessum málaflokki svo uppfylla megi reglugerðarkröfur. Það er orðið sjálfsagt og eðlilegt í okkar huga að þessi mál séu í lagi. Umhverfisvitund landsmanna hefur náttúrlega vaxið mjög mikið á undanförnum árum og þetta er málaflokkur sem við viljum að sjálfsögðu hafa í lagi eins og aðra umgengni við náttúruna. Ófullnægjandi hreinsun skólps getur haft mikil og slæm áhrif á umhverfið. Sem dæmi má nefna að gera má ráð fyrir að mikið af úrgangi á borð við plast berist með fráveituvatni út í umhverfið, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom hér inn á, þar sem er lítil eða engin hreinsun, sérstaklega á landsbyggðinni. Töluverð umræða hefur verið um hugsanlega skaðsemi efna í frárennsli sem hefur eiginlega ekki verið gefinn nægilegur gaumur við skólphreinsun fram að þessu. Þá erum við að tala um örplastið og svo lyfjaleifar eins og nefnt er.

Gera má ráð fyrir því að núna og á næstu misserum verði meira svigrúm hjá verktökum til þess að standa að framkvæmdum með hagkvæmari hætti. Í ljósi efnahagsástandsins er samdráttur í fjárfestingum og verklegum framkvæmdum þannig að auðvitað er þetta kjörið árferði til þess að fara í þetta mikilvæga átak. Einfaldlega vegna þeirrar stöðu sem við erum í vegna veirufaraldursins og þess mikla samdráttar í efnahagslífinu sem honum fylgir þá er þetta kjörinn tími til að fara í átak í fráveitumálum.

Þetta frumvarp er vonbrigði að mínum dómi hvað það varðar. Umhverfisráðherra hefur nú beðið með þetta, held ég, í tvö ár eftir að hann tók við ráðherraembætti, að skipa þennan starfshóp og frumvarpið var ekki á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi löggjafarþing. Ég verð að segja að mér finnst þetta sýna svolítið áhugaleysi hjá hæstv. ráðherra með þetta mál en ég veit þó að hann er áhugasamur um umhverfismál almennt en einhvern veginn virðast þessi fráveitumál oft og tíðum gleymast í þeim efnum. Það er ekki nógu gott að mínu viti og þessi staða er alvarleg. Eins og þær upplýsingar sem Samorka hefur tekið saman sýna þá búa einungis 23% landsmanna við skólphreinsun sem uppfyllir kröfur reglugerðar ef höfuðborgarsvæðið er undanskilið.

Umhverfismál á að nálgast á grundvelli almannasjónarmiða um vernd og umhverfisgæði en ekki sem einhverja uppsprettu skattstofna, ef svo má að orði komast. Ríkisvaldið á að hvetja sveitarfélögin til að vinna á þessum nærumhverfisvanda, standa myndarlega við bakið á þeim svo þau geti uppfyllt þessar lagalegu skyldur sínar ásamt því að hvetja þau sérstaklega til þess að auka hreinsun skólps svo draga megi úr mengun vatns og sjávar. Auk þess bara vegna þess að öll okkar matvælaframleiðsla á upphaf sitt og endi, eins og t.d. þegar kemur að sjávarútveginum og landbúnaðinum, og það er bara mjög mikilvægt að þessir hlutir séu í góðu lagi, sérstaklega ef við stefnum í átak á innlendri matvælaframleiðslu. Þá er þetta þáttur sem þarf að vera í lagi.

Rökstuðningurinn fyrir þessari leið hvað fjármögnun varðar af hálfu ráðherra er sá að það styður við stefnu um einföldun virðisaukaskattskerfisins, auk þess sem fjárstjórnarvald er þá óskorað í höndum Alþingis án þess að um sjálfvirkni í útgjaldavexti verði að ræða. Ég hef að sjálfsögðu verið talsmaður þess að Alþingi sinni sínu fjárstjórnarvaldi án afskipta fjárveitingavaldsins. En því miður höfum við horft upp á annað í þessum fjáraukalögum sem við höfum verið að vinna núna í fjárlaganefnd. Það er alveg augljóst að fjárveitingavaldið og fjármálaráðuneytið hefur verið að skipta sér af fjárstjórnarvaldi Alþingis og það er mjög slæmt og gott að heyra það sett fram í þessari greinargerð með þessu frumvarpi að það beri að virða það og efla. Þannig að það er svolítill tvískinnungur í þessu, finnst mér, hvað þá hluti varðar. En það gefur augaleið að allar aðgerðir sem miða að því að breyta ekki neinu munu ekki breyta neinu og því mun sú leið sjálfkrafa í raun og veru styðja við stefnuna um einföldun virðisaukaskattskerfisins. Þetta er leið sem sveitarfélögin hafa barist fyrir og þess vegna kemur manni svolítið á óvart að hún skyldi ekki hafa verið valin.

En nánar að þessu skammtakerfi, sem ég vil kalla, vegna þess að nú á að fara að skammta peninga til sveitarfélaganna og það þarf þá að velja sveitarfélögin úr og það er úr takmörkuðu fé að velja. Umsækjendum er gert að sækja um styrki rafrænt og skulu umsókninni fylgja greinargóðar upplýsingar um framkvæmdina og kostnað og skilyrði fyrir fjárstuðningi er að framkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við samþykkta áætlun. Síðan er gert ráð fyrir að fráveitur sveitarfélaga leggi fram áætlun þar sem gerð er nánari grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og áætluðum kostnaði. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku nánari ákvæði um framkvæmdina í reglugerð.

Eins og ég sagði áðan hafa sveitarfélögin síðastliðinn áratug barist fyrir því að gerð yrði breyting á lögum um virðisaukaskatt í þá veru að þau fái 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna fráveituframkvæmda. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einnig í tvígang, eins og ég nefndi hér í andsvari við hæstv. ráðherra, lagt á yfirstandandi kjörtímabili fram þingmannafrumvörp til stuðnings kröfu sveitarfélaganna, þess efnis að sveitarfélögin fengju þá undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum. Það er nokkuð ljóst að samkvæmt þessu frumvarpi hefur Sjálfstæðisflokkurinn þurft að beygja sig undir vald Vinstri grænna innan ríkisstjórnarinnar þegar augljóst er að það hefur ekki verið hlustað á þennan málflutning Sjálfstæðisflokksins í þinginu varðandi endurgreiðslu af virðisaukaskatti til fráveituframkvæmda. Það er í mínum huga nokkuð ljóst að ráðherra er að fara þvert gegn vilja þeirra þingmanna sem hafa lagt þessi frumvörp fram og sveitarfélaganna, að stórum hluta a.m.k., með því að velja leið styrkta- og skammtafyrirkomulags þar sem í raun og veru er undir hans hæl lagt hvort og hvaða sveitarfélög fái styrk til nauðsynlegra fráveituframkvæmda. Enn og aftur vil ég ítreka það að ég styð þetta átak. Þetta er mikilvægt átak og þetta er rétt árferði til þess að fara í það á næstu misserum en þörfin er gríðarlega mikil og þetta er bara spurning um aðferðafræðina.

Í janúar á þessu ári kom út skýrsla á vegum umhverfisráðuneytisins sem ber heitið fyrirkomulag stuðnings ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda og þar er að finna tillögur þessa vinnuhóps. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að í mati á fráveitumálum sem gert var árið 2017 komi fram að til að koma ástandi fráveitumála í viðeigandi horf þurfi 50–80 milljarða kr. fjárfestingu. Þetta er gríðarlega há upphæð og þessar 200 milljónir sem er rætt um hér eru, eins og ég sagði fyrr, bara dropi í hafið í þeim efnum. Þess vegna óttast maður að það verði ekki úr neinu að spila í þessu fyrirhugaða styrkjakerfi á komandi misserum og árum vegna þess, eins og ég nefndi fyrr í andsvari, að nú þarf ríkissjóður svo sannarlega að huga að því hvernig eigi að greiða niður þann mikla halla sem stefnir í að verði vegna útgjalda sem eru tengd kórónuveirufaraldrinum. Verið er að tala um tölur eins og 250 milljarða kr. halla á ríkissjóði og hann gæti jafnvel orðið enn þá meiri. Þá einhvern veginn óttast maður að það verði skorið niður í ýmsum sjóðum og öðru slíku og þetta verði eitt af þeim atriðum sem gætu orðið fyrir því að fjárveitingar yrðu skornar niður. Að sjálfsögðu vona ég að svo verði ekki.

Ef hin leiðin hefði verið valin hefði það náttúrlega í för með sér tekjumissi fyrir ríkissjóð í formi eftirgjafar af virðisaukaskatti, en það gæti þó gert það að verkum að sveitarfélögin fari kannski fremur í framkvæmdir. Það þýðir að þá þarf að ráða verktaka og hönnuði og allt sem því fylgir og þá kemur á móti innkoma í ríkissjóð, þá koma þeir aðilar til með að greiða virðisaukaskatt af þeirri vinnu og þá á ég sérstaklega við hvað laun varðar, t.d. til starfsmanna o.s.frv., og það skilar sér í auknum skatttekjum til ríkissjóðs. Þetta er því eitthvað sem horfir öðruvísi við en þegar ríkissjóður er bara að skammta ákveðið fé í framkvæmd með þessum hætti. Þannig að ég vil bara hvetja til þess að lokum, herra forseti, að þetta fái góða umræðu í nefndinni og menn spyrji nauðsynlegra spurninga í því samhengi, fái gesti á fund nefndarinnar frá sveitarfélögunum, fái sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni á fundi nefndarinnar og hlusti á þá sem standa þessu næst og þurfa að fara í slíkar framkvæmdir eða hafa lengi hugsað sér það og voru e.t.v. að vonast eftir því að virðisaukaskattsleiðin yrði farin.

Að fá sjónarmið þessara aðila er ákaflega mikilvægt í þessari vinnu vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það ber allt of mikið á því að ríkisstjórnin hafi of lítið samráð við sveitarfélögin. Það sáum við og höfum séð í vinnunni við fjáraukalögin og þessa aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, þá hafa sveitarfélögin sem komu á fund fjárlaganefndar kvartað sérstaklega yfir því að það skuli ekki hafa verið haft nægilegt samráð við þau í þeim tillögum sem ríkisstjórnin leggur síðan til og við höfum verið að vinna innan nefndarinnar. Þetta er mjög bagalegt vegna þess að sveitarfélögin eru náttúrlega ákaflega mikilvæg í því sem fram undan er, bæði í þeim efnahagsaðgerðum sem við þurfum að fara í og sveitarfélögin þurfa að standa straum af ýmsum útgjöldum vegna veirufaraldursins. Þau hafa auk þess orðið fyrir miklum tekjumissi þannig að það er mjög mikilvægt að það sé haft víðtækt og gott samráð við þau á öllum stigum málefna er varða sveitarfélögin (Forseti hringir.) og þetta er eitt af þeim stóru málum. Ég vona svo sannarlega að nefndin átti sig á því.