150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:46]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Hér er komið að mínum dómi mjög mikilvægt mál, mikilvæg tillaga að umgjörð um samstarf ríkis og sveitarfélaga um úrbætur í fráveitumálum og komin fram lausn sem hefur kannski vafist dálítið fyrir stjórnvöldum síðustu árin að finna.

Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja fráveituframkvæmdir á vegum fráveitna sveitarfélaga til að uppfylla lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna, lög um stjórn vatnamála og reglugerð um fráveitur og skólp. Lagt er til að í tíu ár verði veitt framlag úr ríkissjóði til fráveituframkvæmda á vegum fráveitna sveitarfélaga og fyrirkomulagið verði sambærilegt við þann stuðning sem var til staðar samkvæmt lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995. Ég trúi því að allar sveitarstjórnir landsins í rauninni hafi beðið eftir framhaldinu frá því að sá stuðningur rann út því að fráveitur skipta náttúrlega sveitarfélögin og hvert samfélag mjög miklu máli. Vel gerðar fráveitur, í samræmi við lög og reglur, eru ákveðin trygging fyrir hreinleika umhverfisins til lands og sjávar, fyrir íbúa og gesti hvers samfélags, en líka fyrir hreinleika þeirrar framleiðslu sem fer fram í samfélögunum og matvælaframleiðslunni ekki síst.

Þetta mál hefur verið lengi til umræðu og náttúrlega verið töluvert samráð. Það er komið inn á það í greinargerðinni með frumvarpinu að starfshópur, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði 1. október 2019, hefur unnið að þessu. Ég átta mig ekki alveg á því af lestri greinargerðarinnar hvert samspil endanlegu tillagnanna er við vinnu starfshópsins og hvort það hafi verið einhverjar tillögur að útfærslum þar, því að það kemur fram að ekki hafi verið hefðbundið samráð við framlagningu frumvarpsins. Þess vegna er ég svolítið forvitin að vita hvað hafi falist í samráðinu sem var búið að eiga sér stað í kannski eitt og hálft ár, tvö ár.

Hér er farið yfir hvað er styrkhæft. Það verði framkvæmdir við sniðræsi og safnkerfi, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Það sem er nýtt er að hönnunarkostnaður, rannsóknakostnaður og byggingarkostnaðurinn verður líka styrkhæfur. Ég held að það sé mjög mikilvægt af því að ég veit að það olli allmörgum minni sveitarfélögum ákveðnum höfuðverk, á fyrra tímabili þessa stuðnings samkvæmt eldri lögum, að menn höfðu ekki nógu traustan grunn að byggja á varðandi aðstæður í hverjum firði eða viðtaka, sem geta verið ár eða vötn, og þarf virkilega að leggja í rannsóknir til að átta sig á því hvað viðtaki fráveitunnar ber og hvaða áhrif fráveitan hefur á viðtakann sem er til staðar. Ég held líka að styrkurinn til rannsókna geri lausnirnar sem verður farið í markvissari og geti líka leitt til nýsköpunar, nýrra leiða í lausnum. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að í þessu verkefni verður ekki horft of þröngt á framkvæmdir þannig að það sé rými til að fara nýjar leiðir ef rannsóknir sýna fram á að það sé skynsamlegt. Þannig geti orðið til nýjar lausnir í hönnun fráveitna.

Fyrri ræðumenn hafa komið inn á að hluti af þessu átaki er að vinna gegn örplastmengun í hafinu. Það er líka gert ráð fyrir að hliðsjón verði höfð af aðgerðaáætlun í tengslum við vatnaáætlun vegna stjórnar vatnamála sem ég held að sé líka mjög mikilvægt í þessu samhengi.

Aðeins um framkvæmdina. Það á að auglýsa eftir umsóknum árlega en auðvitað væri það frekar ómarkvisst að það væri bara horft á hvert ár fyrir sig af því að þetta eru allt langtímaverkefni eins og hér hefur komið fram. Þess vegna er gert ráð fyrir að sveitarfélag leggi fram áætlun um fyrirhugaðar framkvæmdir og kostnað til lengri tíma og þannig verði mögulegt að forgangsraða og tímasetja einstakar framkvæmdir til þess að skapa fyrirsjáanleika fyrir hvert og eitt sveitarfélag á þessu árabili, 2020–2030.

Að lokum vil ég ítreka að ég tel þetta vera afskaplega mikilvægt mál sem ég hlakka til að fjalla um í umhverfis- og samgöngunefnd. Samstarf ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu og rekstur fráveitna er á stefnuskrá Framsóknarflokksins og er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar þannig að við erum að stíga hér mikilvægt skref sem fellur að áætlunum bæði ríkis og sveitarfélaga og stefnu stjórnmálaflokka og er jafnframt viðspyrna gegn Covid.