150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[19:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að fara þarf vel yfir þennan þátt í starfi nefndarinnar. Ég held að það sé líka mikilvægt að fyrir nefndina verði kallaðir þeir aðilar sem þekkja best til í þessum málaflokki og vinna með þennan málaflokk, Rauði krossinn sem dæmi, en einnig löggæslan, landamæraeftirlitið, Útlendingastofnun, vegna þess að það er alveg ljóst að þessar stofnanir vinna ekki nægilega vel saman. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að fá þessa aðila fyrir nefndina. Ég hef t.d. spjallað sérstaklega við landamæraeftirlitið eða lögregluna um þennan málaflokk og margt fróðlegt hefur komið þar fram sem ég held að sé mjög nauðsynlegt að nefndin fái vitneskju um, og ég hvet til þess að það verði gert.

Enn og aftur: Þetta er málaflokkur sem er viðkvæmur og þá sérstaklega, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, með börn. Þar verðum við að fara varlega og skoða öll sjónarmið og það er hlutverk nefndarinnar. Vonandi fæst þá einhver skynsamleg niðurstaða hvað það varðar. Það er það sem mér finnst að leggja eigi upp með. Þau eru náttúrlega gríðarlega mikilvæg, blessuð börnin, og þau eru líka undir þann hattinn sett að geta kannski ekki tjáð sig nákvæmlega um hvað þau vilja o.s.frv. Stundum hafa foreldrar áhrif á börnin, hvort þau vilja vera áfram eða vilja vera heima eða fara, eða hvernig sem það er. Þetta eru allt sjónarmið sem skipta verulegu máli og þarf að fara nákvæmlega yfir. Það er mitt innlegg í þetta andsvar.