150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[19:51]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Í þessari umræðu hafa ýmsar ágætar ræður verið fluttar og ég hef ekki í hyggju að endurtaka það sem þar hefur komið fram, svona ef ég get komist hjá því. Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem þetta mál mun koma til minna kasta og í þeirri vinnu hef ég í hyggju að taka sérstakt mið af umsögnum aðila sem ég tel að hafi sérstaka sérþekkingu á þessum málaflokki, þ.e. Rauði krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ef það er eitthvað sem kallað er eftir af hálfu þjóðarinnar nú á tímum, fyrir utan það að þekkingin sé höfð að leiðarljósi í baráttunni við veiruna, er það að stjórnvöld leggi núna til hliðar hefðbundin ágreiningsmál. Allir leggist á eitt, taki höndum saman, þingmenn stjórnarliðs og stjórnarandstöðu og ríkisstjórnin hafa samráð við stjórnarandstöðuna sem að sínu leyti greiði fyrir málum. Þetta er rík krafa í þjóðlífinu. Þetta hefur gengið upp og ofan, stundum upp og stundum ofan. En það vekur sérstaka furðu í ljósi þessarar kröfu að ríkisstjórnin skuli núna af alveg undraverðri þrákelkni leggja fram einmitt þetta mál sem enginn friður hefur verið um, enginn friður er um og enginn friður getur orðið um. Það stendur til að keyra það í gegn upp á gamla mátann svo brýnt er það talið af þessari ríkisstjórn, undir forystu Vinstri grænna, að þrengja möguleika þess nauðleitarfólks sem kemur hingað til lands til að koma undir sig fótunum. Í þessu frumvarpi er slíkt fólk ævinlega kennt við tilhæfulausar umsóknir, rétt eins og beiðni þess um skjól hér á landi sé einhvers konar tilraun til að sóa dýrmætum tíma hjá mikilvægu fólki.

Herra forseti. Í greinargerðinni með þessu frumvarpi kemur orðið skilvirkni fyrir 17 sinnum. Nú getur skilvirkni verið ágæt og jafnvel nauðsynleg til að ljúka erindum og málum með farsælli niðurstöðu en skilvirkni má ekki vera skálkaskjól og má ekki vera ópersónulegt stofnanaorð um skort á mannúð. Skilvirkni virkar bara þegar hún fer saman við mannúðina. Hún getur aldrei verið markmið í sjálfu sér. Svo dæmi sé tekið, kannski fáránlegt dæmi, er ekki hægt að koma að manneskju sem er í nauðum stödd, og maður á kannski að vera mættur eftir 5 mínútur á einhvern fund, og neita að hjálpa henni með þeim orðum að skilvirknin leyfi því miður ekki að neitt sé gert. Nei, því miður, skilvirknin leyfir mér ekki að hjálpa þér. Ég bið hæstv. forseta forláts á tungumálinu: „Computer says no.“

Skilvirkni kemur svo oft fyrir í greinargerð frumvarpsins, höfundar þess eru svo hugfangnir af þessu orði, að það hvarflar að manni að þeir skilji það jafnvel í bókstaflegum skilningi, þetta sé virkni til að skila, skila fólki aftur á sinn stað, sinn upprunastað. En, herra forseti, sá staður er óvart ekki til eða öllu heldur: Þau eru komin á sinn stað. Þau eru á griðastað, á stað þar sem þau hafa möguleika til að byggja upp líf og tilveru. Þeim verður ekkert skilað þangað sem þau numu fyrst land á flótta sínum undan óbærilegum aðstæðum því að þar biðu þeirra líka aðstæður sem ekki var hægt að búa við.

Virðulegi forseti. Mannúð og skilvirkni eru ekki andstæður heldur forsenda hvort annars. Mannúðin verður að liggja til grundvallar skilvirkninni sem svo aftur þarf að fylgja mannúðinni. Vel má vera að mannúðin hafi um of verið niðurstaða eftir upphlaup í fjölmiðlum hin seinni árin. Við þekkjum öll þessar fréttir sem koma með reglulegu millibili af fjölskyldum þar sem er kannski fólk sem er búið að koma sér vel fyrir í vinnu og öllum líkar vel við það. Börnin eru komin í skóla, það eru jafnvel langveik börn eins og dæmi eru um sem þurfa á sérstöku skjóli að halda og það stendur til að vísa þessum fjölskyldum úr landi. Þá berast af því fregnir, það koma myndir af þessu fólki í blöð, viðtöl, og almenningur rís upp til varnar þessum fjölskyldum. Almenningur sér sig í hugsanlegum aðstæðum þessa fólks. Hvað ef við myndum lenda í að okkar heimili yrði rifið upp með rótum og við rekin á flótta? Myndum við ekki vilja geta vænst mannúðar einhvers staðar? Þannig hugsar fólk og bregst til varnar þeim fjölskyldum sem stendur til að reka úr landi. Oftar en ekki hefur niðurstaðan orðið sú að fólki er þyrmt. Á síðustu stundu kemur bréf, kemur einhver riddari á hesti með bréf, sem leysir það undan þessum brottrekstri. Í framhaldinu gerist fólkið nýtir þegnar í samfélaginu og er staðráðið í að duga vel í nýju samfélagi, nýju lífi, nýju tækifæri fyrir sig og sína.

Við þekkjum nokkrar svona sögur. Hvað sýna þær? Þær sýna mannúð. Og já, þær sýna skilvirkni, skilvirka mannúð, mannúðlega skilvirkni. Þær sýna ekki þá sérstöku vélrænu skilvirkni sem að er stefnt með þessu frumvarpi um tölvuna sem alltaf skal segja nei. Frumvarpinu virðist meira að segja ætlað að bregðast við þessari slitróttu mannúð, kannski á þeim forsendum að það sé óréttlátt gagnvart öllum hinum þegar bara fáir fái sérstaka meðferð, þarna þurfi að vera samkvæmni, annað sé óskilvirkt og jafnvel ómannúðlegt. En í stað þess að leitast við að laga þennan réttlætishalla, með því að auka möguleika fólks á réttlátri og sanngjarnri málsmeðferð, þá er farið í hina áttina. Það er leitast við að loka fyrir möguleika fólks á réttlátri og sanngjarnri málsmeðferð svo að allir búi þá við sama ranglætið, sama hvernig komið sé fyrir þeim. Dyflinnarreglan segi að eitt skuli yfir alla ganga. Um þessa nálgun ríkisstjórnarinnar á málefni útlendinga getur aldrei orðið sátt.

Ég er sannfærður um það, herra forseti, að gott samfélag sé ekki reist á uppruna fólks, húðlit eða öðrum einkennum sem það getur lítið gert í sjálft. Ég held að það skipti ekki máli hvort fólk á uppruna sinn í Húnavatnssýslu, Bombay eða Gilleleje eða Langholtsveginum eða Kuala Lumpur eða hvort fólk hefur hinar og þessar matarvenjur, heldur hina eða þessa hátíðisdaga eða klæðir sig einhvern veginn eða trúir á þessa guði eða aðra eða engan. Gott samfélag er reist á því að geta unnt öðrum þess að vera eins og þeir eru. Það er reist á umburðarlyndi og kannski hæfilegum hlutföllum af velviljuðum áhuga og áhugaleysi um hætti og hagi annars fólks, vissum sambýlisþroska. En umfram allt er gott samfélag reist á óbifanlegri virðingu fyrir lýðræði, frelsi og mannréttindum, þar á meðal einstaklingsréttindum allra, ekki bara þeirra sem hegða sér vel eða virðast eiga slíkt skilið heldur allra, líka þeirra sem eru þreytandi og leiðinlegir og aðhyllast fáránlegar hugmyndir, meira að segja þeirra sem aðhyllast hugmyndir sem beinast gegn því opna lýðræðislega samfélagi sem við viljum standa vörð um, svo lengi sem þeir haga þá þeirri baráttu með ásættanlegum hætti.

Ég held að gott samfélag sé reist á jöfnuði, jafnræði en ekki einsleitni, ekki fámenningu heldur fjölmenningu, ekki einræðum heldur samræðum. Ég held líka að gott samfélag grundvallist á stöðugri endurnýjun, menningarlegri og vitsmunalegri, og ég held að þannig hafi það verið frá upphafi Íslandsbyggðar þegar hingað safnaðist saman alls konar fólk, úr alls konar ólíkum samfélögum og áttum sem smám saman myndaði með sér samfélag. Hvert barn sem fæddist hér vegna samfunda fólks af ólíkum uppruna jók fjölbreytni mannlífsins og aðlögunarhæfni þjóðarinnar að óblíðri náttúru. Sjálfur er ég afkomandi nýbúa hér sem á 19. öld kom hingað barnungur með tvær hendur tómar og átti eftir að auðga þjóðlífið, ekki síst vegna þess að hann vildi svo gjarnan sanna að hér ætti hann víst heima, hvað sem hver segði, og gæti orðið jafn nýtur þegn og hver annar.

Íslenskt samfélag þarf vinnufúsar hendur. Þrátt fyrir tímabundið atvinnuleysi þarf að ráðast í stórfellda uppbyggingu á ótal sviðum og þá þarf vinnuafl af margvíslegum toga. Við höfum valið þá leið að veita tímabundið atvinnuleyfi, iðulega í gegnum vinnumiðlanir eða atvinnurekendur, en við höfum af einhverjum ástæðum síður kært okkur um að fá hingað fjölskyldur sem geta skotið hér rótum. Fyrir vikið hafa kannski innflytjendur ekki alltaf náð að mynda þau lífrænu tengsl við samfélagið sem eru okkur svo brýn og nauðsynleg. Ég held að gott samfélag grundvallist á sterkum gildum sem mér sýnist að hafi ekki verið höfð nægilega að leiðarljósi við gerð þessa frumvarps. Mannúðin og réttlætið eiga aldrei að vera undantekning eða umbun fyrir góða hegðun og eiga heldur ekki að vera fjarverandi við afgreiðslu mála. Mannúðin á að vera grunnregla í samfélaginu.